LA Clippers hafa gert fimm ára samning við Tyronn Lue um að þjálfa liðið. Clippers hafa verið án þjálfara síðustu vikurnar eftir að Doc Rivers sagði starfi sínu lausu, en hann þjálfaði liðið bróðurpart annars áratugarins.

Lue hefur verið aðstoðarþjálfari hjá Clippers síðan í fyrra, en hann hefur áður verið aðalþjálfari liðs Cleveland Cavaliers í deildinni, þar sem hann meðal annars vann titilinn tímabilið 2015-16. Þá hefur hann einnig unnið titilinn sem leikmaður, en það gerði hann í tvígang með Los Angeles Lakers tímabilin 1999-00 og 2000-01.

Samkvæmt fregnum mun Chauncey Billups verða aðstoðarþjálfari Lue hjá Clippers. Billups varð NBA meistari og verðmætasti leikmaður úrslita með Detroit Pistons árið 2004.