Þau gleðitíðindi bárust nýlega að fyrrverandi landsliðsmaðurinn Þorleifur Ólafsson hafi tekið fram skóna á nýjan leik eftir þriggja ára fjarveru. Þorleifur, sem er fæddur árið 1984, var lengi vel einn af bestu leikmönnum deildarinnar en meiðsli gerðu það að verkum að hann þurfti að hætta eftir lokaúrslitin 2017. Karfan sló á þráðinn til Þorleifs og byrjaði á því að spyrja af hverju hann væri að koma aftur núna:

„Ætli það megi ekki segja að ég hafi ekki fundið mig í neinu öðru – og það var kominn tími á að koma sér af stað á nýjan leik í körfunni, og ég verð bara að sjá til hvernig það mun ganga,“ segir Þorleifur og bætir við:

„Ég þurfti að hætta fyrir þremur árum vegna meiðsla en löngunin að spila aftur var alltaf sterk í mér. Í dag er ég meiðslalaus og að nálgast mjög gott form, og vonandi kemst ég í toppform fljótlega.“

Þorleifur með Íslandsmeistaraliði Grindavíkur 2013

Það er ljóst að ef Þorleifi tekst að komast í sitt gamla góða form þá verður það mikill styrkur fyrir Grindvíkinga því hann var lykilleikmaður í Íslandsmeistaraliði Grindavíkur árin 2012 og 2013 og vann hann líka bikarinn með félaginu árin 2006 og 2014.

„Ég mun vonandi hafa einhver bætandi áhrif á leikmannahópinn, og ég er ekkert í þessu bara til að vera með – ég vil ná árangri,“ segir Þorleifur sem einnig er aðstoðarþjálfari Grindvíkinga.

Þorleifur hefur á einhverjum augnablikum þótt svipa til kanadíska leikarans Jim Carrey

En hvaða markmið setja Grindvíkingar sér fyrir nýhafið tímabilið?

„Við viljum vera á meðal fjögurra efstu liða í deildarkeppninni og ná langt í bikarnum; við erum með sterkan leikmannahóp og ætlum okkur að gera vel. Það verður hins vegar bara að koma í ljós hvert gengið verður og í lok deildarkeppninnar munum við svo auðvitað endurmeta markmiðin,“ segir Þorleifur sem telur að deildin verði afar jöfn í vetur:

„Eins og ég sagði þá erum við með sterkan leikmannahóp og metnað til að ná langt, en þannig er  einfaldlega líka staðan hjá mörgum liðum – það eru fullt af góðum liðum og leikmönnum í deildinni og keppnin verður hörð og spennandi. Við megum ekkert slaka á og verðum að halda góðri einbeitningu og berjast eins og menn, og þá náum við langt.“

Það er gleðiefni fyrir körfuboltaáhugamenn að Þorleifur sé aftur mættur á parketið. En hvað skyldi þessi sigursælasti leikmaður Grindvíkinga frá upphafi starfa við dags daglega?

„Ég er að selja ferskan fisk til útflutnings og það fer bara ágætlega með körfuboltanum,“ segir Þorleifur að lokum.

Umfjöllun / Svanur Snorrason