Miami Heat lögðu Los Angeles Lakers með 3 stigum í nótt, 111-108, í fimmta leik úrslitaeinvígis liðanna um NBA meistaratitilinn. Lakers hefðu með sigri geta tryggt sér titilinn, en staðan er nú 3-2, þeim í vil. Næsti leikur liðanna er komandi sunnudag.

Gangur Leiks

Leikurinn var í járnum frá upphafi. Eftir fyrsta leikhluta leiddu Heat með einu stigi, 25-24. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þeir svo að vera örlitlu skrefi á undan, ná mest 11 stiga forystu í öðrum leikhlutanum, en Lakers vinna það að mestu niður. Staðan 60-56 þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins er leikurinn svo áfram í járnum. Þar sem að liðin halda áfram að skiptast á stuttum áhlaupum. Heat enn með forystu fyrir lokaleikhlutann, 88-82. Um miðbygg fjórða leikhlutans ná Lakers svo að komast í forystu í fyrsta skipti síðan í fyrsta leikhlutanum í stöðunni 96-97. Þá forystu ná þeir þó nákvæmlega ekkert að byggja ofan á og er leikurinn í raun karfa á móti körfu, eða vítum, með eins stigs mun á milli liðanna síðustu mínúturnar.

Kjörið tækifæri Green

Með 16 sekúndur eftir, einu stigi undir (109-108) fá Lakers sína síðustu sókn í leiknum. Í henni fær bakvörðurinn Danny Green kjörið tækifæri til þess að setja opið þriggja stiga skot og vinna titilinn fyrir Lakers, en hann neglir boltanum framan á hringinn. Markieff Morris tekur þá frákast fyrir Lakers og er næstum búinn að koma boltanum inn á Anthony Davis undir körfunni. Nema hvað, það klikkar líka, Morris grýtir boltanum útaf og Heat sigla sigrinum í höfn eftir það með tveimur vítum frá Tyler Herro þegar 1.6 sekúndur voru eftir. Með engin leikhlé eftir var sú staða vonlaus fyrir Lakers, lokaniðurstaða 111-108.

Atkvæðamestir

LeBron James var atkvæðamestur fyrir Lakers í leiknum með 40 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar. Fyrir Heat var það Jimmy Butler sem dróg vagninn með 35 stigum, 12 fráköstum og 11 stoðsendingum.

Kjarninn

Heat halda einvígi liðanna vel lifandi með þessum sigri í nótt. Lakers, vissulega, þurfa bara að vinna annan af (mögulega) næstu tveimur, á meðan að Heat mega ekki tapa. Allir fimm leikir þessa einvígis nema einn hafa verið nokkuð spennandi, þar sem að sigur hefði geta dottið hvoru megin sem er. Því alls ekki ólíklegt að Heat nái að taka næsta og knýja fram oddaleik. Með alla nema bakvörðinn Goran Dragic heila í sínu liði, á meðan að mögulega þurfa Los Angeles Lakers nú að hafa áhyggjur af þátttöku Anthony Davis, sem meiddist í leik næturinnar og virtist alls ekki ganga heill til skógar í seinni hálfleiknum.

Tölfræði leiks