Los Angeles Lakers lögðu Miami Heat í nótt með 13 stigum, 106-93, í sjötta leik einvígis liðanna um NBA meistaratitilinn. Með sigrinum unnu Lakers seríuna 4-2 og taka því við af Toronto Raptors sem ríkjandi meistarar bestu deildar í heiminum.

Leikur næturinnar var í raun aldrei spennandi. Lakers leiddu með 8 stigum eftir fyrsta leikhluta, 28 í hálfleik og 29 fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða gerðu þeir svo nóg til þess að sigla að lokum gífurlega öruggum 13 stiga sigri í höfn, 106-93.

Atkvæðamestur fyrir Lakers í leiknum var LeBron James með 28 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar. Fyrir Heat var það Bam Adebayo sem dróg vagninn með 25 stigum og 10 fráköstum.

Verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna var LeBron James, en hann hefur unnið þau verðlaun í öll fjögur skiptin sem hann hefur unnið titilinn, 2012, 2013, 2016 og nú 2020. Þá er þetta í eina skiptið sem leikmaður hefur verið valinn verðmætasti leikmaður lokaúrslita með þremur mismunandi liðum, Los Angeles Lakers (2020), Cleveland Cavaliers (2016) og Miami Heat (2012 & 2013)

Titillinn sá sautjándi sem Lakers vinnur, en ekkert lið hefur unnið hann oftar í deildinni. Gera þeir það í 32 ferðum í lokaúrslitin, sem einnig eru flestar ferðir liðs í deildinni í úrslitin.

Tölfræði leiks