Los Angeles Lakers lögðu Miami Heat rétt í þessu í fjórða leik úrslitaeinvígis liðanna um NBA meistaratitilinn, 102-96. Lakers því komnir með 3-1 forystu í einvíginu og þurfa því aðeins einn sigur í viðbót til þess að tryggja sér titilinn, en næsti leikur liðanna er kl. 01:00 aðfaranótt komandi laugardags.

Gangur leiks

Lakers byrjuðu leik næturinnar betur, leiddu eftir fyrsta leikhluta með 5 stigum, 22-27. Undir lok fyrri hálfleiksins gera Heat þó vel í að missa þá ekki of langt frá sér, staðan 47-49 þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks skiptust liðin á snörpum áhlaupum. Lakers þó enn skrefinu á undan eftir þrjá leikhluta, forystan 5 stig fyrir þann fjórða, 70-75. Leikurinn var í járnum nánast allan síðasta leikhlutann, eða þangað til um tvær mínútur voru eftir, þegar að Lakers náðu að setja forystuna í 9 stig. Eftir það sigldu þeir nokkuð öruggum 6 stiga sigurleik í höfn, 96-102.

Atkvæðamestir

LeBron James var atkvæðamestur í liði Lakers í nótt, skilaði 28 stigum, 12 fráköstum og 8 stoðsendingum á 39 mínútum spiluðum. Fyrir Heat var það Jimmy Butler sem dróg vagninn með 22 stigum, 10 fráköstum og 9 stoðsendingum.

Kjarninn

Alls ekki ólíkt síðustu tveimur leikjum þessa einvígis, þá hefði þessi leikur geta dottið báðumegin. Fyrir utan fyrsta leik seríunnar, sem Lakers áttu skuldlausan, hafa Heat gert vel í að breyta og bæta á milli leikja þannig að þeir séu alltaf í færi til að vinna undir lok leikjanna. Gera það þrátt fyrir að þá hafi vantað stjörnuleikmanninn Bam Adebayo í leik 2 og 3 og vanti enn annan mikilvægan í Goran Dragic. Að því sögðu, sé litið til sögu og leikmannahópa þessara tveggja liða, verður að teljast nánast ómögulegt að Heat komi til baka og vinni einvígið, þar sem þeir þurfa til þess að vinna þrjá leiki í röð.

3-1

Staðan sem Heat er komin í, að vera undir 3-1, er ekki falleg. Aðeins eitt lið hefur áður í sögunni komið til baka og orðið meistari eftir að hafa lent 3-1 undir, en það var lið LeBron James tímabilið 2015-16, Cleveland Cavaliers, sem komu þá til baka gegn Golden State Warriors.

Tölfræði leiks