Líkt og í gær eru landsliðsmenn Íslands á ferðinni á meginlandinu.

Jón Axel Guðmundsson og Fraport Skyliners mæta liði Vechta í þýsku bikarkeppninni kl. 15:00 að staðartíma. Jón Axel hefur farið vel af stað með Skyliners, en liðið tapaði fyrsta leik sínum í keppninni gegn Göttingen, áður en þeir unnu Giessen í gær.

Einnig kl. 15:00 að staðartíma mæta Elvar Már Friðriksson og Siauliai liði Nvezis í LKL deildinni í Litháen. Nevezis með 3 sigra það sem af er í 5. sæti deildarinnar á meðan að Elvar og félagar eru við botninn, enn í leit að sínum fyrsta sigri í vetur.

Haukur Helgi Pálsson og félagar í Morabanc Andorra munu svo mæta stórliði Barcelona kl. 20:00 að staðartíma í ACB deildinni. Barcelona í 4. sæti deildarinnar með 4 sigra og 1 tap á meðan að Andorra eru í 9.-13. sætinu með 3 sigra og 3 töp.