Lárus Jónsson tók við liði Þórs frá Þorlákshöfn fyrir þetta tímabil og Karfan heyrði í kappanum.

Lárus er spurður hvernig honum líki lífið í Þorlákshöfn og hvaða vonir og væntingar hann hafi til liðsins á þessu tímabili.

„Mér líður mjög vel í Hamingjunni þar sem búið er að vinna gott starf í körfunni í mörg ár, sem við náum vonandi að byggja ofan á í vetur. Okkar væntingar í vetur eru þær að spila vel saman og vera duglegasta liðið í deildinni. Til þess að ná þessum markmiðum ætla strákarnir að vera í besta forminu og fórna sér fyrir liðið.“

Lárus sem þjálfari Breiðabliks 2018

En hvað segirðu mér um deildina – hvaða lið telur þú að munu berjast við toppinn og hvaða lið við botninn?

„Það er erfitt að spá fyrir um hvernig deildin mun þróast þar sem það eru margir óvissuþættir. Eftir fyrstu umferðina voru augljós gæði hjá Val og Stjörnunni. Annars held ég að nokkur lið gætu komið á óvart þar sem nýliðar Hattar voru nálægt því að vinna Grindavík í fyrsta leik og Þór Akureyri stóð í Keflavík í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vanta tvo atvinnumenn.“

Lárus sem þjálfari Þórs Akureyri á síðasta tímabili

Hún er þéttskipuð dagskráin hjá Lárusi í Þorlákshöfn; hann þjálfar meistaraflokk karla og unglingaflokk ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka. Hefur hann einhvern tíma aflögu í annað en körfuboltann?

„Það er meira en nóg að gera hjá mér í þjálfuninni en sem betur fer þá er starfið aðaláhugamál mitt, en ég gef mér yfirleitt tíma í líkamsrækt og lestur.“

Að lokum Lárus – hvernig finnst þér staðan á landsliðinu vera? Við höfum farið á tvö stórmót og leikmenn eins og Martin og Tryggvi að verða betri og betri – er ekki bara ástæða fyrir bjartsýni á framtíðina?

„Landsliðið ætti að verða betra á næstu árum þar sem okkar bestu menn í dag eiga mörg góð ár eftir. Sterkir leikmenn eins og þeir sem þú nefndir og Jón Axel Guðmundsson og Elvar Friðriksson eiga eftir að setja mark sitt enn frekar á landsliðið. Svo verður gaman að sjá Kristófer Acox með liðinu í næstu leikjum en hann virkaði í fantaformi í fyrsta leik með Val nú um daginn.“

Umfjöllun / Svanur Már Snorrason