Los Angeles Lakers lögðu Miami Heat með 10 stigum, 114 gegn 124 í öðrum leik úrslitaeinvígis liðanna um NBA meistaratitilinn. Lakers því komnir með 2-0 forystu í einvíginu og þurfa tvo í viðbót til þess að tryggja sér titilinn, en næsti leikur liðanna er komandi sunnudag.

Nokkur skörð voru höggin í leikmannahóp Heat fyrir leik kvöldsins, þar sem bæði voru þeir án Goran Dragic, sem og stjörnuleikmannsins Bam Adebayo vegna meiðsla. Þá voru Lakers enn án bakvarðarins Dion Waiters, sem ekkert hefur náð að taka þátt í úrslitaeinvíginu vegna meiðsla á nára.

Los Angeles Lakers byrjuðu leik næturinnar betur, leiddu með 6 stigum eftir fyrsta leikhluta, 23-29. Undir lok fyrri hálfleiksins bættu þeir svo við forskot sitt, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 54-68 Lakers í vil.

Í upphafi seinni hálfleiksins gerðu Heat vel í að missa Lakers ekki lengra frá sér. Minnkuðu muninn eilítið í þriðja leikhlutanum, en voru þó enn 10 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 93-103.

Ófáar körfur Lakers í leiknum komu úr djúpinu í nótt, eða 16 talsins. Merkilegra er þó metið sem liðið setti með því að reyna 47 þriggja stiga skot í leiknum, en ekkert lið hefur skotið boltanum þaðan jafn oft í lokaúrslitum NBA deildarinnar.

Þrátt fyrir að hafa tapað leiknum með aðeins 10 stigum virtist mikill munur á liðunum í leik næturinnar. Mikið af því mætti skrifa á fjarveru Dragic frá leiknum, en kannski enn meira hvað þeir virtust sakna framherjans Bam Adebayo á báðum endum vallarins. Ljóst er að ef að hans nýtur ekki við í næstu leikjum, er hætta á að þetta einvígi verði eins stutt og það getur.

Atkvæðamestir fyrir Lakers í nótt voru LeBron James með 33 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar, en Anthony Davis bætti við 33 stigum og 13 fráköstum. Fyrir Heat var það Jimmy Butler sem dróg vagninn með 25 stigum, 8 fráköstum og 13 stoðsendingum.

Tölfræði leiks