Í samtali sem Vísir átti við Víðir Reynisson yfirlögregluþjón hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra verður það lagt til í dag að íþróttafélög geri hlé á æfingum og keppni næstu tvær vikurnar. Mun þetta vera liður í hertum aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins.

Alls voru 99 manns greindir með veiruna í gær, en það hafa aldrei verið fleiri á einum degi. Tilmælin til íþróttafélaga munu vera hluti af þeim tilmælum sem sóttvarnarlæknir mun senda frá sér í dag. Þar verður líklega kveðið á um að félög geri hlé á æfingum og keppni hjá börnum og fullorðnum næstu tvær vikurnar.

Frekari fregnir eru væntanlegar varðandi málið, en bæði er upplýsingafundur Almannavarna kl. 15:00 í dag í beinni útsendingu á flestum miðlum landsins, sem og munu sérsambönd væntanlega gefa út sín tilmæli í kjölfarið.