Veðurblíðan og haustlitadýrðin í Uppsveitum Árnessýslu kemur öllum í gott skap. Stemmningin í Íþróttahúsinu á Flúðum var því góð þegar lið Hrunamanna lék sinn fyrsta leik í 1. deild karla í 10 ár. Gestirnir frá Selfossi buðu upp á drengilega baráttu, dómararnir voru hressir, heimamenn í hátíðarskapi og áhorfendur skemmtu sér prýðilega og studdu ágætlega við bakið á leikmönnum liðanna.

Barna- og unglingastarf Hrunamanna hefur gengið afar vel undanfarin ár og skilað allnokkrum leikmönnum upp í meistaraflokk. En hingað til hafa önnur félög í landinu en Hrunamenn notið krafta þessara krakka þegar þeir hafa náð þroska til að leika fullorðinsbolta. Sérstaklega á það við um konur úr Hreppunum sem nokkrar hafa gert það gott í liðum eins og Breiðabliki, Hamri/Þór, KR og Haukum og gera enn. Grunnurinn af barna- og unglingastarfinu á Flúðum var lagður fyrir mörgum árum en undanfarinn áratug og rúmlega það hefur kyndilberi þess góða starfs verið Árni Þór Hilmarsson þjálfari Hrunamanna. Hann er nú mættur með lið í 1. deildina þar sem kjarninn er leikmenn úr yngri flokkum félagsins. Liðið er svo styrkt með einum leikmanni úr Þorlákshöfninni, öðrum úr Hafnarfirði og þremur erlendum leikmönnum, þeim Karlo Lebo og Jasmin Perkovic frá Króatíu og Bandaríkjamanninum Corey Taite.

Í kvöld var það Corey sem fór mikinn fyrir liðið, skoraði 42 stig. Jasmin meiddist snemma í leiknum og var fyrir vikið ekki eins áberandi í leik liðsins eins og búast má við að hann verði í vetur. Karlo var líka tæpur, spilaði á annarri löppinni. Orri Ellertsson lék vel og Þórmundur Smári Hilmarsson kom með gott framlag af bekknum. Árni rúllaði mannskapnum inn og út og fengu flestir að spreyta sig.

Í liði Selfoss kvað mest að Gunnari Steinþórssyni, ungum leikmanni sem gekk til liðs við félagið frá KR fyrir tímabilið. Hann er flinkur að bera upp boltann, áræðinn og mjög efnilegur. Sveinn Birgisson, hinn KR ingurinn í liði Selfoss, og heimamaðurinn Arnór Bjarki áttu ágætan leik og Aljaz var drjúgur. Chris þjálfari liðsins var eins og Árni Þór duglegur að skipta leiktímanum með öllu liðinu.

Hrunamenn náðu góðu forskoti strax í upphafi og leiddu allan tímann, allt til loka. Sigurinn var aldrei í hættu. Þeir voru betra liðið næstum allan leikinn. Selfyssingar komu til baka í 3. leikhluta en komust aldrei nægilega nálægt heimamönnum til að hleypa leiknum upp. Heimasigur í fyrsta leik á Flúðum 95-81.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Karl Hallgrímsson