Los Angeles Lakers lögðu Miami Heat í nótt með 13 stigum, 106-93, í sjötta leik einvígis liðanna um NBA meistaratitilinn. Með sigrinum unnu Lakers seríuna 4-2 og taka því við af Toronto Raptors sem ríkjandi meistarar bestu deildar í heiminum.

Verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna var LeBron James, en hann hefur unnið þau verðlaun í öll fjögur skiptin sem hann hefur unnið titilinn, 2012, 2013, 2016 og nú 2020. Þá er þetta í eina skiptið sem leikmaður hefur verið valinn verðmætasti leikmaður lokaúrslita með þremur mismunandi liðum, Los Angeles Lakers (2020), Cleveland Cavaliers (2016) og Miami Heat (2012 & 2013)

Þjálfari Lakers Frank Vogel talaði um James í viðtali eftir að titillinn var í höfn. Sagði hann þar að leikmaðurinn væri sá besti sem heimurinn hafi séð og að fólk sæi það bara að hluta til á vellinum, en að hann hafi enn frekar komist að afhverju eftir að hann byrjaði að þjálfa hann, þar sem hann hafi fengið að kynnast hvernig hann hugsaði um leikinn.

Brotið er hægt að sjá hér fyrir neðan, en viðtalið í heild er svo enn neðar: