Í kvöld kl. 23:30 munu Los Angeles Lakers og Miami Heat mætast í sjötta leik liðanna um NBA meistaratitilinn. Fyrir leikinn eru Lakers með 3-2 forystu og þurfa þeir því aðeins einn sigur í viðbót til þess að tryggja sér titilinn, en Heat gerðu vel í að vinna síðasta leik og koma í veg fyrir að þeir næðu að klára einvígið í fimm leikjum.

Almennt er frammistaða liðanna í úrslitakeppni þessa árs metin nokkuð ólíkt. Þar sem að lið Lakers vann deildarkeppni Vesturstrandarinnar á tímabilinu, á meðan að Heat enduðu tímabilið í 5. sæti Austurstrandarinnar og hafa á leið sinni í úrslitin slegið út lið Indiana Pacers (4. sæti), Milwaukee Bucks (1. sæti) og síðast Boston Celtics (3. sæti)

Þessi góði árangur Heat má að einhverju leyti skrifast á þann bolta sem að liðið spilar undir stjórn Erik Spoelstra, það að næstum allir í liðinu geti komið inn á og haft áhrif á leikinn, sem og tvær af óeigingjarnari stjörnum deildarinnar drífi liðið áfram inni á vellinum, Bam Adebayo og Jimmy Butler.

Báðir hafa þeir stjörnuleikmenn liðsins, Bam og Jimmy, verið stórkostlegir það sem af er úrslitakeppni. Skiptust á, ásamt Goran Dragic kannski, að drífa liðið áfram í hvern sigurinn á fætur öðrum í úrslitakeppni Austurstrandarinnar, þar sem liðið sópaði Pacers, tapaði aðeins einum leik fyrir ógnarsterku liði Bucks og tveimur fyrir Celtics í úrslitum deildarinnar.

Bam og Dragic komu þó eitthvað laskaðir út úr einvígi Heat gegn Celtics og hefur Jimmy Butler því þurft að bera hitann og þungann af leiðtogahlutverki Heat í úrslitaeinvíginu gegn Lakers, en þar hefur leikmaðurinn svo sannarlega staðið undir væntingum. Í tveimur sigurleikjum liðsins í einvíginu hefur Butler skilað þreföldum tvennum. 40 stig, 11 fráköst og 13 stoðsendingar síðasta sunnudag og 35 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar síðasta föstudag.

Gerir þjálfarinn Friðrik Ingi Rúnarsson framgöngu Butler að umræðuefni á samfélagsmiðlinum Twitter í morgun. Þar sem hann segir þessa frammistöðu Butler ekki koma sér á óvart, þar sem hann hafi séð leikmanninn æfa með þáverandi liði sínu, Philadelphia 76ers, fyrir nokkrum árum.

Bendir þjálfarinn áhugasömum um frammistöðuna um að horfa á Detail þátt ESPN um Butler þar sem að Kevin Durant fer yfir sögulega frammistöðu hans í þriðja leik Heat og Lakers, en brot af honum er hægt að sjá hér.