Njarðvík lagði KR fyrr í kvöld í fyrstu umferð Dominos deildar karla, 80-92.

Hérna er meira um leikinn

Kári Viðarsson spjallaði fyrir Körfuna við þjálfara KR, Darra Freyr Atlason, eftir leik í DHL Höllinni.

Darri Freyr þurfti að sætta sig við tap í fyrsta leik með KR-liðið:

Auðvitað súrt að tapa í fyrsta leik og það á heimavelli…hvað fannst þér helst klikka hjá þínu liðið?

Við stóðum okkur illa í að dekka þriggja stiga línuna, þeir skutu 40% í leiknum og mér fannst það vera svona stærsta málið. Við gerðum þeim það líka of auðvelt að spila einn á einn upp úr þessum skiptum í staðinn fyrir að þrengja völlinn, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það olli því líka að þeim tókst að búa sér til auðveldar körfur

Jújú – þið lentuð í basli með Zvonko undir körfunni…hann er bara ógeðslega góður…

Jájá, en mér fannst við laga það í hálfleik, hann var með 20 í hálfleik og 5 í seinni og þessar tvöfaldanir á hann á blokkinni voru bara að ganga ágætlega en skiptin á bakhliðinni út á þriggja stiga skyttuna var kannski ekki eins góð og Njarðvík gerðu mjög vel að hreyfa boltann sín á milli og margir geta skotið…

Mikið rétt. Nú fannst mér vörnin hjá Njarðvík ekkert sérstök, sérstaklega í fyrri hálfleik, þið voruð að ná að opna hana svolítið en ykkur gekk kannski svolítið illa að nýta það…?

Jah, mér fannst við vera of hægir á löngum köflum og einhæfir í því sem við vorum að gera. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til að breyta því. En eðli málsins samkvæmt þá ertu auðvitað svolítið einhæfur þegar þú ert að reyna að troða einhverju inn hjá mönnum á mjög stuttum tíma, við höfum ekki verið saman lengi, þá er ég ekki bara að tala um útlendingana heldur líka restin af liðinu. Það væri bara ósanngjarnt af okkur gagnvart sjálfum okkur að ætlast til þess að við séum stórkostlegir í fyrsta leik. Þetta tekur smá tíma

Jújú liðin eru líka bara svolítið mismikið tilbúin og kannski eru Njarðvíkingar meira tilbúnir en þið…?

“…þeir eru allaveganna með alla sína leikmenn…það er einn sem situr heima hjá sér…

Jájá það vantar Kanann hjá ykkur…og þeir eru nú gjarnan bestu leikmenn liðanna…! Við megum auðvitað ekki lesa of mikið í þetta…

Neinei…þetta er bara fyrsti leikur og ekkert hægt að ákveða út frá því…

Bjössi var ekki með heldur…er hann meiddur?

Já, hann var á góðu róli og líklegur í kvöld en hann fékk smá bakslag og missti af þessum en það hefði verið frábært að vera með hann í leiknum

Hvernig leikmaður er Kaninn ykkar?

Hann er skorari fyrst og fremst og spilar ás eða tvist. Hann getur hjálpað Matta í leikstjórnandanum og við hefðum þurft á því að halda í dag, að hafa einhvern annan sem líður vel með að búa til sóknartækifæri því við erum svo með fullt af leikmönnum sem geta lifað á því þegar einhver dregur til sín varnir

Akkúrat. En vantar ykkur ekki stóran mann?

Nei, við töpuðum frákastabaráttunni með þremur en þeir skutu 40% úr þriggja stiga!

Sagði Darri og vafalaust er það eintómt bull að KR-inga vanti stóran mann…