Los Angeles Lakers lögðu Miami Heat rétt í þessu í fyrsta leik úrslitaeinvígis NBA deildarinnar. Lakers því komnir með yfirhöndina í einvíginu, en það lið sem vinnur fyrst fjóra leiki mun hampa meistaratitlinum.

Leikur næturinnar var nokkuð jafn í upphafi. Lakers þó skrefinu á undan og þegar að fyrsta leikhluta lauk, 28-31. Undir lok fyrri hálfleiksins taka þeir svo öll völd á vellinum og leiða með 17 stigum þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 48-65.

Í upphafi seinni hálfleiksins bæta Lakers svo bara enn frekar í. Gera nánast útum leikinn í þeim þriðja, staðan 67-93 fyrir lokaleikhlutann. Í honum gera Heat veika tilraun til þess að koma sér aftur inn í leikinn, en allt kemur fyrir ekki. Lakers tóku fyrsta leik einvígis liðanna nokkuð örugglega, 98-116.

Atkvæðamestir fyrir Lakers í leiknum voru LeBron James með 25 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar og Anthony Davis með 34 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir Heat var það Jimmy Butler sem dróg vagninn með 23 stigum og 5 fráköstum.

Næsti leikur liðanna er aðfaranótt komandi laugardags kl. 01:00.

Tölfræði leiks