Rétt í þessu sendi KR frá sér yfirlýsingu varðandi brotthvarf framherjans Kristófers Acox sem hann tilkynnti fyrr í dag. Ásamt því að þakka leikmanninum fyrir sitt framlag til félagsins, kemur fram í yfirlýsingunni að félgið hafi reynt það sem það gat til þess að halda í hann.

Einnig tekur félagið á þeim staðfestu heimildum að annað lið hafi þrátt fyrir samning Kristófers við KR, haft samband við hann og enn frekar sent drög að samningum til hans.

Er þetta að einhverju leyti enn ein staðfestingin á fréttum slíkum, en fyrir helgina birti Karfan fregnir slíkra efna sem vörðuðu tilraunir Vals til þess að semja við leikmanninn, en Valur bar þær sakir af sér degi seinna og vændu miðilinn um ófaglegheit.

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér fyrir neðan:


Eins og komið hefur fram þá hefur Kristófer Acox lýst því yfir að hann hafi yfirgefið KR. Körfuknattleiksdeild KR hefur undanfarnar vikur lagt mikla vinnu í að leysa þá stöðu sem uppi er varðandi samning Kristófers. Eins og allir vita hefur Covid-19 faraldurinn sett strik í reikninginn í íþróttahreyfingunni síðustu mánuði og er KR engin undantekning þar. Körfuknattleiksdeild KR bauð Kristófer mjög sanngjarna lausn til að leysa málin, bæði hvað varðar launaágreining og áframhaldandi samning, en því miður hafnaði Kristófer því.

Körfuknattleiksdeild KR hefur fyrir því öruggar heimildir að önnur lið hafi sett sig í samband við Kristófer þrátt fyrir að hann væri samningsbundinn KR, eins að hann hafi fengið send samningsdrög frá öðru liði. Þess háttar vinnubrögð eru, ef ekki ólögleg, þá allavega ekki til eftirbreytni innan okkar ágætu körfuboltahreyfingar.

Körfuknattleiksdeild KR þakkar Kristófer hans framlag til félagsins og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.