Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem verið hafa í eða í kringum deildina.

Deildin fer af stað á morgun með fjórum leikjum. Nýliðar Hattar taka á móti Grindavík á Egilsstöðum, Tindastóll og ÍR mætast í Síkinu, Haukar heimsækja Þór í Þorlákshöfn og í Vesturbænum eigast við heimamenn í KR og Njarðvík.

Nokkuð örugglega í efsta sætinu þetta árið er lið Stjörnunnar. Fyrir neðan þá má segja að nokkuð þéttur pakki sé niður í fjórða sætið. Þar sem Keflavík er í öðru, Tindastóll þriðja og Valur í því fjórða.

Næstu þrjú lið þar á eftir eru nokkuð nálægt hvoru öðru. KR í fimmta sætinu, Njarðvík því sjötta og Grindavík sjöunda.

Baráttan um síðasta sæti úrslitakeppninnar er talin verða á milli ÍR og Hauka, þar sem ÍR er í áttunda sætinu, litlu ofar en Haukar í því níunda.

Þá gerir spáin ráð fyrir að Þór verði í einskismannslandi í tíunda sætinu. Nokkuð frá sæti í úrslitakeppninni og eitthvað frá því að falla.

Að lokum eru nýliðar Hattar og Þór Akureyri í ellefta og tólfta sætinu. Mjög örugglega (samkvæmt spá) að fara niður um deild.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá spá sérfræðinga Körfunnar og þau stig sem liðin fengu í útreikningum:

  1. Stjarnan – 11.45
  2. Keflavík – 10.27
  3. Tindastóll – 9.95
  4. Valur – 8.95
  5. KR – 6.73
  6. Njarðvík – 6.55
  7. Grindavík – 6.27
  8. ÍR – 5.86
  9. Haukar – 5.05
  10. Þór – 3.36
  11. Höttur – 1.76
  12. Þór Akureyri – 1.73