Miðherjinn sterki, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, fetar nýjar slóðir í körfunni í vetur, en eins og kunnugt er gekk hann í raðir Hattarmanna á Egilsstöðum fyrr á þessu ári.

Hvað segir Sigurður um vonir og væntingar Hattar á tímabilinu sem er í þann mund að hefjast?

„Við erum ekki í þessu bara til að vera með og ætlum okkur að gera góða hluti í vetur, þótt spádómar sérfræðinga gefi það ekki til kynna. En við hlustum ekkert á það – við höfum mikla trú á okkur sjálfum. Það er kominn tími til að Höttur haldi sér uppi og festi sig í sessi og ég segi hiklaust að við viljum gera enn betur en það; við setjum stefnuna á sæti í úrslitakeppninni“, segir Sigurður hvergi banginn og bætir við: „Það er mjög góður andi í hópnum og félaginu og mér finnst hópurinn vera sterkur og vel samsettur. Við viljum og ætlum okkur að gera vel.“

Sigurður lék aðeins níu mínútur á síðasta tímabili með ÍR, en hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í fyrsta leik tímabilsins. Hann segist allur vera að koma til: „Þetta er auðvitað búið að vera alveg hundleiðinlegt ferli og ég er mjög feginn að ég er búinn að ná mér. Hnéð er í góðu lagi og það er stutt í að ég komist í toppform og mig hlakkar mikið til að byrja að spila.“

Sigurður er Ísfirðingur og hann segir stemninguna á Egilsstöðum vera svipaða og á Ísafirði. „Ég smell hérna inn alveg eins og flís við rass. Hér er gott fólk og hér er gott að vera, stutt í allt og mér líkar bæjarbragurinn vel.“

Meðfram körfuboltanum er Sigurður í starfi íþróttakennara. „Ég er að kenna íþróttir í Fellaskóla í Fellabæ, steinsnar frá Egilsstöðum – bara hinumegin við Lagarfljótið. Það er gaman að prófa kennsluna og fer óneitanlega vel með körfuboltanum,“ segir Sigurður að lokum.

Umfjöllun / Svanur Snorrason