Mikið hefur verið rætt og ritað um mál Kristófers Acox þar sem nágrannafélögin KR og Valur hafa meðal annars borið á góma. Kristófer sem leikið hefur með KR síðustu ár og fagnað þremur íslandsmeistaratitlum, hefur ákveðið að söðla um og leika annarsstaðar á næstu leiktíð.

Líkt og Karfan greindi frá í gær snýr ákvörðun Kristófers að ógreiddum launum sem hann á inni hjá KR. KR svaraði því í yfirlýsingu sinni í gær og sagðist hafa boðið: “Kristófer mjög sanngjarna lausn til að leysa málin, bæði hvað varðar launaágreining og áframhaldandi samning,

KR segir þar einnig að önnur félög hafi haft samband við Kristófer sem væri samningsbundinn félaginu. Frá þessu var einnig greint frá á Karfan.is í síðustu viku.

Inná heimasíðu KKÍ má finna lista yfir alla þá leikmenn sem eru samningsbundnir félögum, þar sem félögin hafa skilað inn samningum til KKÍ. Athygli vekur að samningur Kristófers Acox við KR er ekki þar á meðal. Kristófer skrifaði undir samning við KR sumarið 2019 til tveggja ára.

Karfan sló á þráðinn til Hannesar S. Jónssonar formanns KKÍ sem staðfesti að samningur Kristófers væri ekki skráður hjá KKÍ, þar sem honum hafði ekki verið skilað inn. Að öðru leiti vildi hann ekki tjá sig um málið.

Greinargerð um leikmannasamninga segir greinilega að lið þurfa að skila inn leikmannasamning til KKÍ ef þeir eigi að hafa þýðingu við ákvörðun KKÍ eða aga og úrskurðarnefndar. Í grein 3 segir:

“Skrifstofa KKÍ skal annast skráningu leikmannasamninga hjá félögum. Skal félag, eigi síðar en 1 mánuði eftir stofnun samnings, senda skrifstofu KKÍ yfirlýsingu um slíka samninga með upplýsingum um það hversu lengi viðkomandi leikmaður er bundinn félaginu. Tilkynningin skal vera undirrituð af viðkomandi félagi og leikmanni, eða forsvarsmanni hans ef leikmaður er yngri en fullra 18 ára. Óskráðir leikmannasamningar eða samningar sem skráðir eru síðar en 1 mánuði eftir undirskrift, hafa ekki
þýðingu við ákvörðun KKÍ eða aga og úrskurðarnefndar um félagaskipti.”

Nokkur dæmi eru til um að leikmenn hafi getað gengið frá samningum sínum þar sem félögin hafi ekki skilað inn samningum og þeir því ekki gildir. Sem dæmi yfirgaf Sigtryggur Arnar Tindastól eftir árs veru þar sem Skagfirðingar höfðu ekki skilað inn samningum.

Einnig var mjög umrætt þegar Kristinn Marínósson gekk til liðs við ÍR frá Haukum 2016. Það mál fór alla leið úrskurðar- og aganefndar sem dæmdi málið í hag ÍR og Kristins í úrskurðarorðum segir.

“Þar sem kærði ber hallann af því að skilyrði ákvæðis 3. gr. reglugerðar KKÍ um leikmannasamninga voru ekki uppfyllt er ljóst að leikmannasamningur kærða og Kristins Marinóssonar, m.a. hvað varðar lengd þess tíma sem leikmaður er bundinn félaginu, hefur ekki þýðingu við ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar um félagaskipti. Í ljósi þessa lítur aga- og úrskurðarnefnd svo á að samningur kærða og Kristins Marinóssonar sé ekki bindandi í skilningi reglugerða KKÍ og fellst því á kröfu kærenda í málinu.”

Óumdeilanlegt er að Kristófer Acox hafði undirritað samning við KR. Aftur á móti ef horft er til greinagerðar og dóma um svipuð mál þá er samningur Kristófers ekki bindandi í skilningi reglugerða KKÍ. Því er Kristófer í raun frjálst að semja við önnur lið, sé horft til þess.

Einungis 101 samningum hefur verið skilað inn í meistaraflokki karla sem verður að teljast ansi lág tala sé horft til þess hversu margir leikmenn eru á samning í efstu tveimur deildunum. Til að mynda er engin leikmaður KR, Keflavíkur, ÍR, Þór Ak, Þór Þ og Njarðvíkur sem gilda samninga hjá KKÍ miðað við listann á heimasíðu KKÍ sem samkvæmt upplýsingum KKÍ er uppfærður daglega. Sem gerir helming allra liða í Dominos deildinni. Þess vegna eru allir leikmenn þessara félaga í raun ekki með bindandi samninga gagnvart KKÍ.

Nokkuð hefur verið rætt um trúverðugleika samninga körfuknattleiksfélaga þar sem ítrekað hafa komið mál líkt og þessi. Reglugerð KKÍ er hinsvegar ansi skýr þegar kemur að þessu: samningar þurfa að berast KKÍ. Það er því ansi fróðlegt að sjá hversu mörg lið í Dominos deildinni hafa ekki skilað inn samningum og ekki í samræmi við þann staðal sem félögin vilja að íþróttin sé á.