Valencia Basket, lið Martins Hermannssonar, mætti í kvöld franska stórliðinu LDLC ASVEL Villeurbane í úrslitum “endurkomumóts” Euroleague deildarinnar (We’re back preseason tour), en um er að ræða röð móta þar sem þátttökulið Euroleague mætast fjögur í senn.

Skemmst er frá því að segja að Valencia bar sigur úr býtum í leik kvöldsins, 77-66, og eru því sigurvegarar þessa endurkomumóts, en auk Valencia og LDLC mættu þýska stórliðið Bayern München og margfaldir Evrópumeistarar Olympiacos til leiks á mótið, sem fram fór í Valencia.

Martin Hermannsson, sem gekk til liðs við Valencia í sumar eftir sigursæla dvöl hjá þýska liðinu Alba Berlin, heldur því áfram að bæta titlum í safnið, en hann skoraði 6 stig í úrslitaleiknum á 17 mínútum. Titill dagsins er væntanlega enn sætari fyrir þær sakir að Martin fagnar í dag 26 ára afmæli sínu.