Los Angeles Lakers lögðu Denver Nuggets, 114-108, í fjórða leik liðanna í úrslitum Vesturstrandar NBA deildarinnar í nótt. Staðan því 3-1 fyrir Lakers, sem þurfa aðeins einn sigur í viðbót til þess að fara í úrslit, þar sem annaðhvort Miami Heat eða Boston Celtics munu bíða þeirra.

Liðin skiptust í nokkur skipti á forystunni í fyrsta leikhluta. Undir lok fyrri hálfleiksins náðu Lakers þó að rífa sig aðeins frá Nuggets og voru með 5 stiga forystu þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 60-55.

Í upphafi seinni hálfleiksins gera Nuggets svo vel í að missa Lakers ekki lengra frá sér. Má segja að Lakers hafi verið skrefinu á undan. Nuggets komu í hvert einasta skipti til baka og leikurinn var ennþá fullkomlega opinn þegar það leið á lokamínúturnar.

Greinilegt var þó að mikil orka hafði farið hjá Nuggets við að halda í og voru þeir því kannski ekki í bestu stöðunni til þess að stela leiknum í lokin. Þar munaði mest um þrjá hluti. Villuvandræði Nikola Jokic, sem fékk sína fimmtu villu snemma í leikhlutanum. Þá staðreynd að Lakers voru snemma komnir í bónus og fengu víti nánast allan fjórða leikhlutann. Þá dróg einnig eilítið af Jamal Murray þegar að leið á leikhlutann, en mikið hafði mætt á honum sóknarlega allan leikinn, hafði í það minnsta tekið þrjár nokkuð harðar byltur fyrr í leiknum sem augljóst var að höfðu áhrif.

Atkvæðamestur fyrir Lakers í leiknum var Anthony Davis með 34 stig og 5 fráköst. Fyrir Nuggets var það Jamal Murray sem dróg vagninn með 32 stigum og 8 stoðsendingum.

Næsti leikur liðanna er aðfaranótt komandi sunnudags kl. 01:00.

Tölfræði leiks