Landsliðsframherjinn Kristófer Acox er ekki enn kominn með félagaskipti til Vals í Dominos deild karla þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um félagaskiptin í fjölmiðlum fyrir nokkru síðan. Samkvæmt heimildum Vísis mun það vera svo vegna trega KR til þess að skrifa undir pappírana.

Samkvæmt fréttinni vill KR ekki skrifa undir félagaskiptin, en líkt og fréttir í kringum félagaskiptin voru, verður það að teljast vera vegna einhverrar kergju tengda þeim og hvernig staðið hafi verið að brotthvarfi leikmannsins frá uppeldisfélagi sínu í Vesturbænum.

Samkvæmt formanni KKÍ, Hannesi S. Jónssyni, mun málið vera komið inn á borð aga- og úrskurðanefndar, sem mun dæma í málinu. Svipuð staða var uppi árið 2016, þegar að nefndin þurfti að dæma í máli félagaskipta Kristins Marínóssonar frá Haukum til ÍR. Féllst nefndin á félagaskiptin þá af þeirri ástæðu að samningur Kristins við Hauka hafði ekki skilað sér til sambandsins eins og reglugerð gerir kröfu um.

Svipað gæti verið uppi á teningnum í þetta skiptið, þar sem að samningur Kristófers við KR er ekki skráður hjá sambandinu. Ljóst er að Valur þarf hér á frekar snöggri meðferð máls að halda, en aðeins vika er í fyrsta leik. Þann 2. október mætir Valur sterku liði deildar og Geysisbikarmeistara Stjörnunnar í Origo Höllinni.