Tveir leikir fóru fram í annarri umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar í gærkvöldi og nótt.

Í fyrri leik kvöldsins lokuðu Miami Heat einvígi sínu gegn Milwaukee Bucks, 4-1, með góðum 103-94 sigri. Bucks léku síðustu tæpa tvo leiki seríunnar án besta leikmanns síns Giannis Antetokounmpo, sem snéri sig á ökkla á fyrstu mínútum leiks númer fjögur. Heat eru því komnir í úrslit Austurstrandarinnar, þar sem liðið mætir sigurvegara einvígis Boston Celtics og Toronto Raptors.

Ljóst er að um mikið skipbrot er að ræða fyrir Bucks, sem voru með besta árngur allra liða á tímabilinu, en annað tímabilið í röð fara þeir óvenjulega snemma út úr úrslitakeppninni. Spurningar um hvort Giannis Antetokounmpo verði áfram hjá liðinu munu verða uppi næsta misserið, en hann er með lausan samning hjá liðinu næsta sumar.

Atkvæðamestur fyrir Heat í nótt var Jimmy Butler með 17 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir Bucks var það Khris Middleton sem dróg vagninn með 23 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.

Það helsta úr leik Heat og Bucks:

Í seinni leik næturinnar tóku Los Angeles Lakers forystu í einvígi sínu gegn Houston Rockets, 2-1, með 112-102 sigri. Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi þar sem að liðin skiptust á forystu í heil 22 skipti. Undir lokin voru Lakers þó nokkuð öruggir, sigu framúr á síðustu mínútum leiksins og náðu mest 12 stiga forystu, sem þeir náðu að mestu að halda út.

Atkvæðamestur fyrir Lakers í leiknum var LeBron James með 36 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 varin skot. Hjá Rockets var James Harden bestur, skilaði 33 stigum, 9 fráköstum og 9 stoðsendingum.

Það helsta úr leik Lakers og Rockets:

Úrslit næturinnar

Miami Heat 103 – 94 Milwaukee Bucks

Heat fara áfram 4-1

Los Angeles Lakers 112 – 102 Houston Rockets

Lakers leiða einvígið 2-1