Karfan sló á þráðinn til Kára Jónssonar, eins besta leikmanns landsins, en samningsmál hans eru ekki enn komin á hreint núna stuttu fyrir mót:

“Ég stefni klárlega á að komast aftur út í atvinnumennsku. Það hafa verið nokkrir möguleikar hjá mér sem hafa því miður ekki gengið upp. En ég er á markaðnum og er samningslaus, en ástandið er bara svo skrýtið núna að maður verður að vera þolinmóður. Ég vil halda öllu opnu sem stendur en ég hef æft á fullu með Haukum. Það eru mestu líkurnar á því að ég spili með Haukum í vetur, en ég útiloka ekki að spila fyrir eitthvað annað lið hér á landi. Ég hef ekki enn viljað skrifa undir samning hjá Haukum, vil halda öllum möguleikum opnum, sérstaklega af því að óvissan er svo mikil vegna Covid og hlutirnir geta gerst hratt, og þá verður maður að vera tilbúinn að stökkva til. Haukarnir eru að bíða eftir að ég skrifi undir, og þeir eru efstir á lista hjá mér hér á landi, en mig langar mest af öllu að komast út í atvinnumennsku.”

Kári hefur glímt við erfið meiðsl í hásin en segir að hann hafi náð sér vel af þeim meiðslum:

“Ég er í góðu formi og svo til meiðslalaus – er alltaf að verða betri og betri í skrokknum. Ég er örugglega einn af örfáum sem græddu eitthvað á Covid því þá fékk ég kærkomna hvíld,” segir Kári á léttu nótunum.

Umfjöllun / Svanur Már