ÍR lagði Grindavík í gærkvöldi í fyrsta leik tímabils síns í fyrstu deild kvenna, 80-49. Grindavík hafði hafið tímabil sitt fyrir helgina með sigri á B liði Fjölnis.

Það voru heimakonur í ÍR sem byrjuðu leik gærkvöldsins mun betur, leiddu með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 24-15. Undir lok fyrri hálfleiksins bættu þær svo enn frekar við forystu sína, héldu Grindavík í aðeins 6 stigum í öðrum leikhlutanum á meðan þær settu 23 á töfluna. Staðan 47-21 þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.

Lið Grindavíkur kom betur til leiks í seinni hálfleiknum heldur en þeim fyrri. Ná vopnum sínum að einhverju leyti í þriðja leikhlutanum, en ÍR leiðir þó enn með 27 stigum fyrir lokaleikhlutann. Í honum gera þær svo nóg til þess að sigla að lokum nokkuð öruggum 31 stigs sigri í höfn, 80-49.

Atkvæðamest fyrir ÍR í leiknum var Arndís Þóra Þórisdóttir með 12 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir Grindavík var það Hulda Björk Ólafsdóttir sem dróg vagninn með 17 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum.

Leikur ÍR var með eindæmum einfaldur og vel skipulagður í gær og ljóst er að myndast hefur virkilega sterk liðsheild hjá heimakonum í Hellinum. Í leiknum voru þær að skora ótrúlega mikið af auðveldum körfum, en í heildina skiluðu þær 22 stigum eftir tapaða bolta hjá Grindavík. Létu þær lið Grindavíkur út fyrir að vera óöruggt og ráðlaust á löngum köflum í leiknum. Úrslitin koma eilítið óvart ef litið er til allra þeirra sem spáðu fyrir komandi tímabili, þar sem að Grindavík var í öllum tilvikum talið sterkara heldur en ÍR.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir / Þorsteinn Eyþórsson