Fyrstu deildar lið Breiðabliks hefur samkvæmt heimildum Körfunnar samið við Gabríel Sindra Möller og er líklegt til þess að semja við Kristján Leif Sverrisson um að leika með liðinu á komandi tímabili.

Gabríel Sindri er 21 árs bakvörður sem lék á síðasta tímabili með Augusta Jaguars í bandaríska háskólaboltanum. Áður en hann hélt út lék Gabríel upp alla yngri flokka Njarðvíkur, sem og með Skallagrím í Dominos deildinni og Hamar í fyrstu deildinni. Tímabilið 2018-19 skilaði hann 10 stigum, 3 fáköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik með Hamri. Þá hefur Gabríel einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Gabríel í Blikatreyjunni eftir æfingaleik gegn KR á dögunum

Kristján er 24 ára gamall framherji sem á sínum tíma lék upp alla yngri flokka og með meistaraflokki Hauka. Hann hefur þó ekkert leikið síðan tímabilið 2018-19, en þá skilaði hann 6 stigum og 5 fráköstum á 19 mínútum að meðaltali í leik með Haukum í Dominos deildinni.

Kristján Leifur varð deildarmeistari með Haukum tímabilið 2017-18