Grindavík hefur samið við hinn bandaríska Eric Wise um að leika með liðinu á komandi tímabili í Dominos deild karla.

Wise er Grindvíkingum kunnugur, þar sem hann lék með liðinu haustið 2015, en þá yfirgaf hann liðið til þess að spila í sterkri deild í Suður Kóreu. Í fimm leikjum með Grindavík þá, skilaði Wise 26 stigum og 10 fráköstum að meðaltali í leik.

Gert er ráð fyrir að leikmaðurinn komi til landsins á morgun föstudag og verði klár í slaginn í byrjun október þegar að deildin fer af stað.

Fréttatilkynning:


Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur samið við bandaríska leikmanninn Eric Wise um að leika með liðinu í vetur í Dominos-deild karla. Wise lék með Grindavík við góðan orðstír haustið 2015 en fór frá liðinu um mitt tímabil til að leika í sterkri deild í Suður-Kóreu.


Grindavík hafði fyrr í sumar samið við Bandaríkjamanninn Brandon Conley um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili. Conley er hins vegar að glíma við veikindi og kemur ekki til félagsins. Wise lék fimm leiki með Grindavík árið 2015 og skoraði í þeim að jafnaði 26 stig og tók 10 fráköst.


„Það ríkir mikil ánægja hjá okkur þjálfurum að ná samning við jafnsterkan leikmann og Eric Wise, sérstaklega í ljósi þess að sá erlendi leikmaður okkar sem við sömdum við fyrr í sumar glímir við veikindi. Ég, ásamt nokkrum öðrum leikmönnum í liðinu, lékum með Wise árið 2015 í nokkrar vikur áður hann færði sig til Suður-Kóreu í nokkur ár og svo til Ísraels, þannig við þekkjum til hans styrkleika,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur.


Wise lék í Finnlandi eftir áramót á síðasta tímabili. Wise er þrítugur að aldrei, 198 sentímetrar á hæð og getur bæði leikið stöðu framherja og kraftframherja.


Wise lék í þrjú ár með háskólaliði UC Irvine en skipti síðan yfir í University of Southern California þar sem hann var með 11,9 stig og 5,7 fráköst að meðaltali á síðasta ári sínu.


„Við bindum miklar væntingar við Wise og óskandi að hann þétti hópinn og skili góðu framlagi fyrir Grindavík í vetur,“ bætir þjálfari liðsins, Daníel Guðni Guðmundsson við.


Wise kemur til landsins á föstudag og fer að því búnu í sóttkví. Hann verður því vonandi kominn inn á parketið með Grindavík fljótlega í október.