Haukar tóku á móti Skallagrímskonum í Ólafssal í fyrstu umferð Dominosdeildar kvenna í kvöld. Fyrirfram var búist við sæmilega jöfnum og spennandi leik enda liðunum spáð í öðru og fjórða sæti í spá Körfunnar fyrir tímabilið.

Leikurinn byrjaði vægast sagt skelfilega. Mikill haustbragur á báðum liðum og í rauninni ekkert sem sagði okkur að hér væri um tvö góð körfuboltalið að ræða. Það voru þó skallagrímskonur sem vöknuðu örlítið fyrr. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 10-7 Skallagrím í vil. Eftir þetta var ágætis jafnræði með liðunum og þó svo að boltinn væri alls ekki áhrifafallegur þá var leikurinn allavega spennandi.

Þegar 2 mínútur voru eftir náðu Skallagrímskonur 5 stiga forystu, sem er kannski ekki mikið í venjulegum leik en reyndist gæfumunurinn í kvöld. Lokatölur 51 – 54 gestunum í vil.

Tölfræðin lýgur ekki

Þetta var ekki fallegt. Skallagrímur vann leik þar sem þær buðu upp á 31% skotnýtingu, 21% þriggja stiga nýtingu og 60% vítanýtingu. Haukarnir skutu þó enn verr.

Vilji Skallagrímskvenna að ráðast á körfuna skilaði þeim 30 vítaskotum. Þó svo að þær hafi bara sett 18 af þeim niður þá hjálpaði það mikið hversu aggressívar þær voru.

Best á vellinum

Sanja Orozovic var best í dag. Setti 21 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. 8/15 í skotum. Næst henni var Nikita Telesford sem skoraði 16 stig og tók 13 fráköst.

Hjá Haukunum var Alyesha Lovett með 21 stig og 15 fráköst.

Tölfræði leiksins