Lyfjafyrirtækið Alvogen sem verið hefur stærsti styrktaraðili KR í körfuknattleik verður ekki áfram styrktaraðili liðsins samkvæm heimildum Körfunnar.

Alvogen tilkynnti forsvarsmönnum KR um að samstarfssamningur yrði ekki framlengdur í lok síðasta árs. Samkvæmt heimildarmanni hafa KR-ingar lagt mikla áherslu á að fá framlengingu á umræddan samning vegna mikils greiðsluvanda félagsins og uppgjörs við leikmenn og þjálfara sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Alvogen hefur verið stærstu styrktaraðili KR undanfarin 6 ár. Úr því verður hinsvegar ekki samkvæmt heimildum og búast má við að KR-ingar tilkynni um nýjan samstarfsaðila fljótlega og endurnýi merkingar á búningum sínum.

Alvogen vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað að öðru leiti en að staðfesta að umræddur samningur hafi runnið út á síðasta ári og formanni KR tilkynnt um það formlega í lok síðasta ár að hann yrði ekki framlengdur.  Alvogen er þó ekki hætt aðkomu sinni og styrkjum á íþróttastarfi og undirritaði á síðasta ári þriggja ára samstarfssamning við HSÍ og er nú stærsti einstaki bakhjarl sambandsins.