Körfuboltatímabilið skaust af stað á Króknum í kvöld þegar heimamenn í Tindastól tóku á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn í æfingaleik í Síkinu. Tindastóll hefur hirt nokkra menn frá Þórsurum síðustu ár, ekki síst Baldur þjálfara auðvitað og nú síðast kom Nick Tomsik eftir að hafa stoppað eitt tímabil í Stjörnunni.

Leikurinn fór frekar rólega af stað eins og búast mátti við og sóknarleikur beggja liða nokkuð stirður. Heimamenn virkuðu þó sterkari frá upphafi og leiddu 24-17 eftir fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á þristum í upphafi annars leikhluta og Pétur Rúnar var með sterka innkomu eftir að hafa byrjað á bekknum og sama mátti segja um Emil Karel hinumegin. Stigaskorið í leikhlutanum nokkuð jafnt og Tindastóll leiddi í hálfleik 44-38.

Pétur Rúnar og Tomsik héldu áfram að gera gestunum lífið leitt í þriðja leikhluta og voru vel studdir af Antanas sem hirti alls 14 fráköst í leiknum. Munurinn jókst hægt og þétt og Stólar náðu 9 stiga forystu eftir frábæra alley-up troðslu frá Jaka. Eftir þriðja leikhluta var munurinn orðinn 12 stig og heimamenn litu ekki til baka eftir það. Síðasti leikhlutinn einkenndist svolítið af mistökum beggja liða og ekki var mikið skorað, lokatölur 81-68.

Pétur Rúnar var öflugastur heimamanna með 21 stig (7-10 í skotum), 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Tomsik var mikið í boltanum og skilaði 22 stigum en of mörg skot dönsuðu af hringnum. Viðar, Hannes, Jaka, Helgi Rafn og Axel áttu ágætis leik og Antanas reif niður 14 fráköst eins og áður segir og heilt yfir leit Tindastólsliðið ágætlega út miðað við fyrsta leik haustsins og eiga eftir að styrkjast enn frekar þegar Bandaríkjamaðurinn kemur inn í liðið. Erfiðara var að átta sig á Þórsurum sem virkuðu losaralegir og skipulagið ekki upp á það besta. Emil Karel var að hitta vel og Halldór Garðar stýrði liðinu oft betur en bandaríkjamaðurinn Larry. Stólar unnu frákastabaráttuna nokkuð afgerandi og það hafði sitt að segja um lokaniðurstöðuna.

Heilt yfir hressandi leikur, töluverð barátta og gaman að sjá körfuboltann kominn af stað aftur eftir allt of langt hlé.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna