Hrunamenn, nýliðarnir í 1. keild karla, tóku á móti Hamarsmönnum úr Hveragerði í æfingaleik á Flúðum í dag, laugardag. Maté Dalmay, þjálfari Hamars, er uppalinn á Flúðum og lék með Hrunamönnum fram á fullorðinsár, stundum undir stjórn Árna Þórs Hilmarssonar sem þjálfar Hrunamenn. Engir áhorfendur voru á leiknum aðrir en starfsmenn leiksins.

Hamar hafði leikið gegn ÍR kvöldinu áður og sjálfsagt sat einhver þreyta í Hvergerðingunum.
Það var samt kraftur í þeim og ljóst frá fyrstu mínútu að Hrunamenn fengju öflugri mótherja en þeir höfðu kynnst í leikjum liðsins í 2.-og 3. deild á síðustu tveimur árum. Það var meiri hraði, meira afgerandi snertingar og virkari hjálparvörn í stöðunni maður á móti manni en áhorfandinn í stúkunni á Flúðum hefur séð í því húsi áður.

Leikurinn var jafn frá upphafi til enda. Hrunamenn skoruðu fyrstu stigin og héldu forystunni fram í þriðja leikhluta. Hamar jafnaði leikinn ekki fyrr en í stöðunni 58-58 og náði forystunni í fyrsta sinn 71-72. Upp úr því sigu Hamarsmenn fram úr heimamönnum og náðu nokkurra stiga forskoti. Þá ákvað Maté að láta liðið reyna sig við svæðisvörn. Það þarf vitaskuld að nota æfingaleikina til þess að æfa mismunandi varnarafbrigði. Hrunamenn leystu svæðisvörnina auðveldlega. Bandaríski leikmaðurinn, Corey Taite, hitti nánast öllum skotunum sínum ofan í körfuna. Hrunamenn náðu forystunni aftur og létu hana aldrei af hendi. Þegar stóru leikmenn Hrunamanna, Karlo Lebo og Jasmin Perkovic, voru báðir farnir af velli með 5 villur í 4. leikhluta skiptu Hrunamenn yfir í svæðisvörn eins og Hamar. Það bragð heppnaðist. Anthony Lee var reyndar kominn á bragðið en þá var leiktíminn að renna út. Hrunamenn sigldu sigrinum heim. Lokastaðan 100-95.

Corey Taite var langbesti maður vallarins. Hann skoraði 50 stig, lék góða vörn og stýrði flestum sóknum Hrunamanna af skynsemi. Flæði sóknarleiksins var á köflum heldur lítið, það var haustbragur á þeim, en það kom ekki að sök í þessum leik því Corey sótti grimmt að körfunni og fann sér alltaf pláss til að skjóta og eins og fyrr segir fóru eiginlega öll skotin hans ofan í körfuna. Leikskilningur og reynsla Perkovic kemur að góðum notum og leikmennirnir í kringum hann njóta góðs af nærveru hans. Það er eins og öllum líði vel í návist hans. Karlo Lebo er bersýnilega mikill íþróttamaður, stekkur hátt og tekur mikið til sín. Hann á eftir að reynast drjúgur fyrir Hrunamenn í vetur.

Það er alltaf tilhlökkun að sjá hvernig nýir erlendir leikmenn koma inn í liðin að hausti. Hvernig þeir virka með þeim kjarna leikmanna sem fyrir er. Af þessum æfingaleik að dæma hafa Hrunamenn hafa valið vel. Corey Taite var frábær og hinir tveir verða liðinu mikilvægir. Stuðningsmenn Hamars geta vænst mikils af Hollendingnum Ruud Lutterman. Þar er á ferðinni góður leikmaður. Hann skoraði 22 stig og lék mjög vel, einkum í síðari hálfleik. Bandaríkjamaðurinn Anthony Lee og spænski leikstjórnandinn Jose Medina skorðuðu báðir 28 stig. Oddur Ólafsson byrjaði ekki leikinn, en það kvað mikið að honum undir lokin. Gott var að sjá hann aftur á vellinum en hann tók sér frí frá körfuboltanum í fyrra.

Næsti æfingaleikur Hrunamanna verður gegn Snæfelli á Flúðum eftir viku. Vonandi verður áhorfendabannið þá fallið úr gildi svo körfuboltaáhugafólk í Uppsveitunum geti séð lið sitt keppa.

Tímabil beggja liða fer af stað þann 2. október. Þá munu Hrunamenn taka á móti Selfoss Körfu og Hamar fær Sindra í heimsókn.

Umfjöllun / Karl Hallgrímsson