Vestri hefur samið við bandaríska bakvörðinn Ken-Jah Bosley um að leika með liðinu í 1. deild karla á næsta leiktímabili. Bosley útskrifaðist frá Kentucky Wesleyan háskólanum árið 2017 (D2) og var þriðji stigahæsti leikmaður liðsins frá upphafi.

Frá útskrift í Kentucky hefur Bosley leikið í Ástralíu, Palestínu og Lúxemborg. Á síðasta leiktímabili var hann stigahæsti leikmaður N2 deildarinnar í Lúxemborg með liði sínu Auanti Mondorf en hann skoraði 38,6 stig að meðaltal í leik. Bosley er 185 sm á hæð og getur spilað bæði sem leikstjórnandi og skotbakvörður.

Tímabilið 2017-2018 spilaði hann fyrir De La Salle Al Quds Jerusalem í Palestínu þar sem hann leiddi deildina með 43,9 stig að meðaltali í leik.

Lið Vestra hefur tekið miklum stakkaskiptum frá síðasta tímabili en leikstjórnandi þeirra til margra ára, Nebojsa Knezevic, samdi við Skallagrím í sumar auk þess sem tvíburarnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir skiptu yfir til Stjörnunnar. Liðið er þó ekki á flæðiskeri statt því auk Bosley hefur það fengið Gabriel Adersteg frá Snæfelli og Arnar Smári Bjarnason frá Skallagrím en einnig eru góðar líkur á að ruðningskóngur Íslands, Gunnlaugur Gunnlaugsson, taki fram skóna aftur og leiki með liðinu í vetur.