Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands samþykkti á dögunum nýja reglugerð varðandi ráðstafanir vegna Covid-19 fyrir komandi 2020-21 tímabil.

Tekið er fram að ákvæði hennar gildi umfram ákvæði annarra reglugerða ef grípa þarf til þeirra vegna ráðstafana tengdra heimsfaraldrinum og mun hún falla úr gildi þann 21. júlí 2021.

Í henni er tekið á nokkrum hitamálum sem komu til ákvörðunar stjórnarinnar er aflýsa þurfti síðasta tímabili, en þá þurfti að ákveða hvaða lið færu á milli deilda og þá var deildarmeistratitill afhentur efsta liði Dominos deildar karla, þrátt fyrir að tölfræðilega hafi hann ekki verið unninn.

Á þeim efnum er tekið í fimmtu grein reglugerðarinnar:

 1. grein
  MÓTI AFLÝST
  Ef sýnt þykir að ekki verði unnt að ljúka Íslandsmóti meistaraflokka samkvæmt leikjaskrá vegna COVID-19 getur mótanefnd lagt það fyrir stjórn KKÍ að aflýsa keppni í öllum deildum. Skal þá eftirfarandi gilda:
  5.1. Hafi að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja í deildarkeppni úrvals- og 1. deildar verið leiknir samkvæmt leikjaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst keppni í Íslandsmóti þar með lokið.
  Deildarmeistarar deilda skulu þá krýndir í hvorri deild. Þar sem keppni lauk ekki fellur eitt lið úr úrvalsdeild og deildarmeistarar 1. deildar flytjast upp í úrvalsdeild fyrir næsta tímabil. Engir Íslandsmeistarar verða krýndir án úrslitakeppni.
  5.2. Takist ekki að leika 2/3 hluta leikja í deildarkeppni áður en keppni er aflýst, verður engin færsla milli deilda, engir deildarmeistarar verða krýndir og staða liða við upphaf næsta tímabils á eftir verður sú
  sama og við upphaf þess tímabils sem ekki var hægt að ljúka.
  5.3. Takist að klára 2/3 hluta leikja í stökum deildum skal krýna deildarmeistara þeirra deilda. Engin færsla verður þó milli deilda án þess að allar deildir hjá sama kyni ljúki minnst 2/3 hluta leikja samkvæmt leikjaskrá.
  5.4. Þurfi að fresta leikjum, svo ekki sé hægt að klára staka leiki sbr. 4. grein, þó þannig að leiknir hafa verið minnst 2/3 hlutar deildarkeppni skal röðun liða ákvarðast af grein 5.1. Leika skal úrslitakeppni í samræmi við röðun liða, sé þess kostur.
  5.5. Takist ekki að ljúka bikarkeppni skal ekkert lið krýnt bikarmeistari.
  5.6. Mótanefnd leggur tillögur fyrir stjórn KKÍ hvernig ljúka skuli keppni neðri deilda og yngri flokka.

Einnig er tekið til frestun leikja, nýrra leikdaga og sekta í reglugerðinni sem má í heild nálgast hér.