Jón Arnór Stefánsson, einn allra besti leikmaður sem Ísland hefur átt skrifaði nú í hádeginu undir samning um að leika með liði Vals í Dominos deildinni á næstu leiktíð.

Jón Arnór er alinn upp hjá KR og spilaði þar til ársins 2002 er hann hafði verið valinn efnilegasti og besti leikmaðurinn í íslensku úrvalsdeildinni. Árið 2002 samdi Jón við Trier í Þýskalandi þar sem hann lék í ár.

Eins og flestir vita reyndi Jón Arnór fyrir sér hjá NBA liði Dallas Mavericks árið 2003 og varð annar leikmaðurinn til að vera á samningi hjá NBA liði á eftir Pétri Guðmundssyni. Jón varð síðar fyrsti íslendingurinn til að verða evrópumeistari í körfubolta er hann vann evrópukeppni FIBA með Dinamo Pétursborg.

Síðan hefur Jón Arnór spilað með sterkustu liðum í Evrópu utan ársins 2009 er hann samdi einnig við KR til árs og varð íslandsmeistari með liðinu. Auk þess var hann lykilmaður í íslenska landsliðinu sem komst á tvö stórmót en hann á að baki slétta 100 landsleiki.

Jón Arnór varð Íslandsmeistari með KR síðustu þrjú ár og var í stóru hlutverki á síðasta tímabili sem lauk í mars þegar Covid faraldurinn skall á. Ljóst er að Jón er mikill hvalreki fyrir Val sem hefur verið í uppbyggingu síðustu ár. Hjá Val hittir hann fyrir félaga sinn Pavel Ermolinski en þeir léku saman með KR í mörg ár auk þess að reka fyrirtæki saman.

Valsmenn hafa nú þegar bætt við sig Sinisa Bilic frá Tindastóli og munu bæði Pavel Ermolinskij og Frank Aron Booker halda áfram hjá liðinu. Þá mun Finnur Freyr Stefánsson, margfaldur íslandsmeistari þjálfa liðið. Ljóst er að það verður mjög fróðlegt að fylgjast með Valsliðinu næsta vetur.

Karfan ræddi við þá Jón og Finn á blaðamannafundi í dag og má sjá það hér að neðan ásamt myndasafni: