KKÍ hefur ráðið Daniellu Rodriguez til starfa sem aðstoðarþjálfara í landsliði kvenna. Hún bætist í þjálfarahóp Benedikt Guðmundssonar en honum til aðstoðar er fyrir Halldór Karl Þórsson og nýtur Benedikt því nú liðsinnis tveggja aðstoðarþjálfara. 


Sem leikmaður hefur Daniella hefur leikið hér á landi við góðan orðstír, fyrst í þrjú tímabil með Stjörnunni og svo sl. vetur með KR, og öll tímabilin hefur hún verið meðal hæstu leikmanna í helstu tölfræðiþáttum í Domino’s deild kvenna. Sem þjálfari var hún meðal annars aðstoðarþjálfari U20 liðs kvenna sumarið 2019, og mun hún núna eftir að hún er hætt að spila í efstu deild sjálf, helga sig þjálfun og verður meðal annars aðstoðarþjálfari mfl. karla í Stjörnunni í vetur.

Framundan í vetur eru tveir landsliðsgluggar í nóvember og febrúar með tveimur leikjum í hvert sinn, en það mun skýrast í upphafi september frá FIBA hvort þessir gluggar verði á dagskránni og fari fram eða hvort að verði hliðranir á þeim v/ ástandsins sem ríkir í heiminum í dag.