Tuttugu og tvö lið, forráðmenn NBA deildarinnar og fjölmiðlar eru nú saman komin í Disneylandi á Flórída í lokaðri bólu til þess að klára 2019-20 tímabilið fyrst, en svo fara í úrslitakeppni.

Í ljósi covid-19 faraldursins, sem enn er í vexti í Bandaríkjunum þurfti deildin að setja mjög strangar reglur fyrir bóluna, til þess að koma í veg fyrir að veiran komist inn á svæðið.

Ein af ráðstöfunum deildarinnar var að setja upp síma þar sem hægt er að upplýsa um brot annarra á reglum svæðisins nafnlaust. Samkvæmt Shams Charania hjá The Ahletic ku þessi sími vera byrjaður að fá tilkynningar frá nafnlausum aðilum.

Ljóst er að einangrunin í Disneylandi fer misvel í leikmenn og eru þeir ekki allir með það á hreinu hvað má og hvað má ekki. Leikmaður Sacramento Kings, Richaun Holmes fékk 10 daga sóttkví fyrir að ná sér í mat útfyrir svæðið, en það þýðir að leikmaðurinn getur ekki umgengist liðsfélaga sína eða aðra innan svæðisins á meðan.

Fróðlegt verður að sjá hvernig framhaldið í bólunni verður og hvort að einhverjir fleiri en Holmes verði skikkaðir í sóttkví fyrir brot á reglunum. Einnig verður áhugavert að sjá hvort að leikmenn annarra liða sjái sér hag í að nýta brotalínuna til þess að klaga andstæðinga sína og þar með jafnvel auðvelda sér leiðina að titlinum.