Nú þegar aðeins rúmur mánuður er í að tímabilið fari aftur af stað hefur KKÍ gefið út tilmæli um framkvæmd leikja og komu erlendra leikmanna vegna Covid-19 faraldursins sem enn geisar.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa tilmælin í heild, en þau taka til hinna ýmsu þátta tengdum því að halda smithættu í lágmarki þegar að nýtt tímabil fer af stað.

Tilmæli KKÍ vegna COVID-19

KKÍ gefur út handbók vegna framkvæmdar leikja í Domino’s deildum karla og kvenna sem og 1. deildum karla og kvenna. Umrædd tilmæli flokkast sem viðbót við handbók KKÍ vegna framkvæmdar leikja hefur gildi skv. 7. og 16. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót.

Þessi tilmæli gilda vegna heimsfaraldurs COVID-19 og eru gefin út til að tryggja með sem bestum hætti að keppnistímabilið 2020-2021 gangi sem best fyrir sig. Tilmælin ganga út frá sóttvarnaraðgerðum heilbrigðisyfirvalda og almannavarna. Leiðbeiningarnar eru byggðar á tilmælum þessara aðila og taka mið af aðstæðum við framkvæmd leikja í umræddum deildum meistaraflokka.

Markmið leiðbeininganna er að lágmarka áhættuna á að leikmenn, starfsmenn liða, starfsmenn félaga og aðrir þátttakendur leiksins smitist af COVID-19, og gilda þar til annað verður ákveðið.

Mikilvægasta vopn samfélagsins gegn COVID-19 eru þær almennu sóttvarnaraðgerðir sem embætti landlæknis og almannavarnir hafa kynnt ítarlega síðustu vikurnar. Þessar almennu aðgerðir eru jafn mikilvægar í kringum körfuboltaleiki og annars staðar í samfélaginu.

KKÍ hvetur alla sem koma að framkvæmd leikja til að temja sér þessar aðgerðir sérstaklega.

• Handþvottur og sótthreinsun.
• Regluleg sótthreinsun snertifleta.
• Fækka snertiflötum eins og hægt er (t.d. hafa hurðir opnar, öll ljós kveikt o.s.frv.).
• Nota rakningarapp almannavarna.
• Þau sem finna fyrir minnstu einkennum veikinda ættu að halda sig heima.
• Fylgja fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og almannavarna um sóttkví og/eða einangrun.

Leikvangur og framkvæmd leiks

Líkt og nefnt er hér áður eru almennar sóttvarnaraðgerðir besta vopnið gegn COVID 19. Líkt og fyrr er heimalið ábyrgt fyrir framkvæmd leiks og skulu þessar leiðbeiningar hafðar til hliðsjónar. Að öðru leyti gilda þær almennu reglur sem fram koma í Handbók KKÍ og reglugerð um körfuknattleiksmót.

Auk þeirra almennu aðgerða sem nefndar eru hér á undan er mælt með eftirfarandi aðgerðum:

Leikvangi verði skipt upp í sóttvarnarsvæði og að allur umgangur fólks á milli svæða sé óheimill á meðan á takmörkunum stendur.

Tæknisvæði (búningsklefar, leikmannagangur, boðvangur, leikvöllur, vinnusvæði starfsmanna leiks (ritaraborðs) vinnusvæði ljósmyndara og viðtalssvæði).
Áhorfendasvæði (inngangur áhorfenda, salernisaðstaða, veitingasala, vinnuaðstaða skrifandi fjölmiðla).

Ýmsar almennar aðgerðir sem mælt er með:

• Handspritt sé aðgengilegt á öllum stöðum þar sem leikmenn, dómarar, starfsmenn liða og starfsmenn leiks koma.
• Heimalið sótthreinsi búningsklefa vel áður en gestalið og dómarar mæta til leiks, sem og eftir leik.
• Heimalið sótthreinsi ritaraborð, stóla og búnað ritaraborðs fyrir og eftir leik.
• Lagt er til að heimalið sjái ekki um neinar veitingar fyrir gestalið, dómara, fjölmiðla eða starfsmenn leiks.
• Heimalið sótthreinsi varamannabekki fyrir og eftir leik.
• Séu auglýsingaspjöld sett upp er mælst til þess að starfsmenn leiks klæðist einnota hönskun við uppsetningu sem og við að fjarlægja auglýsingaspjöld.
• Starfsmenn gæslu séu í einnota hönskum og með sprittbrúsa á sér.
• Heimalið sér um að sótthreinsa alla bolta fyrir leik, í hálfleik og eftir leik.
• Ekki verði notast við börn til að leiða inn á í leikjum.
• Leikmenn, þjálfarar, dómarar og aðrir heilsast ekki með handabandi fyrir leiki eða eftir leik.
• Leikmenn, þjálfarar, dómarar og aðrir drekki ekki vökva úr sömu drykkjarílátum.  Hver og einn aðili ætti að vera með sitt eigið ílát (brúsa, flösku eða annað).

Áhorfendur
Samkvæmt gildandi samkomubanni nær það nú til viðburða þar sem fleiri en 500 manns koma saman. Ef áhorfendasvæði er skipt í sóttvarnarhólf er heimilt að allt að 500 áhorfendur geti verið í hverju hólfi. Börn fædd 2005 og síðar telja ekki með í hámarksfjölda áhorfenda á leikjum.

Félögum er skylt að telja inn á leiki, frá því eru engar undanþágur. Skrá skal áhorfendafjölda í tölfræði, auk þess sem senda þarf tölu yfir fjölda áhorfenda á kki@kki.is innan klukkutíma eftir að leik lýkur.

Til að mæta þessu er mælt með eftirfarandi aðgerðum:
• Áhorfendasvæðum skipt í sóttvarnarhólf þar sem því verður við komið.
• Allt að 500 áhorfendur mega vera í hverju hólfi – börn fædd 2005 og síðar telja ekki með í hámarksfjölda í hverju hólfi.
• Sér inngang þarf fyrir hvert sóttvarnarhólf.
• Við alla innganga, og eins víða og talin er þörf á, skal tryggja aðgang að sótthreinsivökva fyrir hendur.
• Nóg er að afmarka hólf með böndum eða borðum.
• 2 metrar ættu að vera á milli sóttvarnarhólfa.
• Öryggisgæsla þarf að vera í hverju sóttvarnarhólfi fyrir sig.
• Áhorfendasvæði þarf að vera afgirt frá leikmannasvæði þannig að ekki sé hægt að komast á milli þeirra.
• Mælst er til þess að miðasala verði sem mest rafræn.
Salernis- og hreinlætisaðstaða.
• Salerni verða að vera hrein og sótthreinsuð. Salerni þurfa að vera aðgengileg fyrir hvert sóttvarnarhólf. Ekki má nota sömu salerni fyrir fleiri en eitt sóttvarnarhólf.
• Handspritt verður að vera aðgengilegt í salernisaðstöðu.
• Ef selja á veitingar skal það gert í hverju sóttvarnarhólfi fyrir sig.
• Mælt er því að boðið sé upp á svæði þar sem hægt er að halda 2ja metra nándarmörk fyrir þá gesti sem kjósa að virða þessa reglu.
• Mikilvægt er að gæta að brunavörnum og tryggja að flóttaleiðir séu í samræmi við byggingareglugerð.

Fjölmiðlar

Megin tilgangur þessara leiðbeininga er að lágmarka hættuna á að leikmenn og starfsmenn liða smitist af COVID-19. Starfsmenn fjölmiðla ættu að hafa þetta markmið í huga í öllum sínum störfum og haga sinni umgengni um leikmannasvæði þannig að sem minnst hætta sé á að hugsanlegt smit berist á milli einstaklinga. 

Með sama hætti ættu félög að reyna að skapa sem bestar aðstæður þannig að starfsmenn fjölmiðla geti sinnt sínum störfum eins og best verður á kosið og haldið þannig uppi gagnlegri umfjöllun um leiki.

KKÍ mælir með að eftirfarandi atriði séu höfð til hliðsjónar hjá félögum og starfsmönnum fjölmiðla til að lágmarka hættuna á smiti:

• Sótthreinsa hendur og búnað reglulega.
• Fækka snertiflötum eins og hægt er.
• Sérstaklega er mælt er með því að fjölmiðlamenn sem hafa vinnuaðstöðu á áhorfendasvæði á meðan á leik stendur taki ekki viðtöl við leikmenn eftir leiki.
• Ef aðstæður krefjast þess að starfsmaður fjölmiðils sé bæði að sinna lýsingu leiks og að taka viðtöl eftir leik þá ætti viðkomandi alltaf að halda amk 2ja metra fjarlægð frá leikmönnum á viðtalssvæði.
• Félög eru ábyrg fyrir því að útbúa viðtalssvæði þannig að hægt sé að halda 2ja metra fjarlægð á milli starfsmanna fjölmiðla og viðmælenda.
• Starfsmenn fjölmiðla eru ábyrgir fyrir því að vera með þann tæknibúnað sem nauðsynlegur er til að hægt sé að taka viðtöl við þær aðstæður sem hér eru nefndar.

Æfingar meistaraflokka – Leiðbeiningar vegna sóttvarnaraðgerða
Almenn markmið:
Markmið leiðbeininganna er að lágmarka áhættuna á að leikmenn, starfsmenn liða, starfsmenn félaga og aðrir þátttakendur leiksins smitist af COVID-19, og gilda þar til annað verður ákveðið.

Mikilvægasta vopn samfélagsins gegn COVID-19 eru þær almennu sóttvarnaraðgerðir sem embætti landlæknis og almannavarnir hafa kynnt ítarlega síðustu vikurnar. Þessar almennu aðgerðir eru jafn mikilvægar í kringum æfingar körfuknattleiksliða og annars staðar í samfélaginu.

Áhersla er lögð á að hver og einn beri ábyrgð á eigin athöfnum og að: „Við erum öll almannavarnir“. Rekstraraðilar íþróttamannvirkja eru beðnir að skrá hjá sér hversu mörgum gestum þeir geta tekið á móti og skoða sérstaklega flöskuhálsa svo sem fataskiptiklefa. Þar er nálægðin mest. 

KKÍ hvetur alla sem koma að æfingum meistaraflokka til að temja sér þessar aðgerðir sérstaklega.
• Handþvottur og sótthreinsun.
• Regluleg sótthreinsun snertifleta.
• Fækka snertiflötum eins og hægt er (t.d. hafa hurðir opnar, öll ljós kveikt o.s.frv.).
• Nota rakningarapp almannavarna.
• Þau sem finna fyrir minnstu einkennum veikinda ættu að halda sig heima.

Framkvæmd æfinga
Líkt og nefnt er hér á undan eru almennar sóttvarnaraðgerðir besta vopnið gegn COVID 19. Forráðamenn félaga, þjálfara og aðrir starfsmenn liða eru ábyrgir fyrir því að reglum sé fylgt. 

Auk þeirra almennu aðgerða sem nefndar eru hér á undan er mælt með eftirfarandi aðgerðum:

• Allir einstaklingar eru hvattir til að viðhafa tveggja metra nándarmörk í samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa.
• Handspritt sé aðgengilegt á öllum stöðum þar sem leikmenn og starfsmenn liða koma.
• Sótthreinsun á öllum æfingabúnaði fyrir og eftir notkun. 
• Leikmenn, þjálfarar, dómarar og aðrir drekki ekki vökva úr sömu drykkjarílátum.  Hver og einn aðili ætti að vera með sitt eigið ílát (brúsa, flösku eða annað). 

Leiðbeiningar til félaga vegna komu erlendra leikmanna (tímabilið 2020-2021)

KKÍ hefur verið í viðræðum við almannavarnir og Utanríkisráðuneytið um komu erlendra leikmanna til landsins fyrir komandi tímabili og leyfi fyrir þá til að koma hingað á meðan ferðabann er í gildi fyrir leikmenn frá USA (og landa utan Evrópu) sem og landa sem ekki eru á lista yfir örugg ríki sem mega ferðast hingað. Eftirfarandi skref bætast við þau skref sem tiltekin eru í reglugerð um félagaskipti.

Ferli félaga verður þannig háttað:

1.  Félög sækja um til UTL að venju fyrir USA leikmenn, skila öllum umbeðnum gögnum inn í frumriti + FBI vottorði.

2. Þegar UTL staðfestir umsókn viðkomandi USA leikmanns, líkt og venjulega, og hún uppfyllir allar kröfur og gefur grænt ljós á að flug fyrir leikmanninn sé pantað þarf að senda fyrirspurn um undanþágu fyrir leikmanninn frá ferðatakmörkunum. Þetta er nýtt skref frá því áður út af COVID-19.

3. Fyrirspurn um hvort öll skilyrði undanþágu séu fyrir hendi er send til áritunardeildar Utanríkisráðuneytisins á netfangið visa@utn.is og óskað eftir staðfestingu á að öll skilyrði undanþágu séu uppfyllt fyrir leikmanninn. Senda þarf staðfestingu UTL með umsókninni sem skilað hefur verið inn með viðhengi. 

Athugið að sækja þarf um undanþágu fyrir þá leikmenn frá ríkjum innan evrópu eins á netfangið visa@utn.is sem ekki hafa ferðafrelsi til Íslands.

Landamæri fyrir íþróttamenn opnast með þessu móti. Við komuna til landsins þarf að fylgja fyrirmælum Almannavarna. Leikmenn sem þurfa undanþágu þurfa að gangast undir tvær skimanir auk þess sem þeir þurfa að sæta sóttkví milli skimana. Um reglur sóttkvíar gildir reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 (https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/hrn/nr/0580-2020). Mikilvægt er að hafa í huga þær reglur sem gilda um heimasóttkví og koma fram í reglugerð heilbrigðisráðherra.


Þeim sem gert hefur verið að sæta sóttkví, hvort sem er á grundvelli 1. eða 2. mgr. 3. gr., er skylt að halda sig heima við eða á þeim stað þar sem þeir eru í sóttkví og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga, sbr. leiðbeiningar sóttvarnalæknis.

Í sóttkví felst eftirfarandi:

1. Einstaklingur má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Einstaklingur má þó fara í gönguferðir en þarf að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum.
2. Einstaklingur má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir.
3. Einstaklingur má ekki nota almenningssamgöngur en honum er heimilt að nota leigubíl.
4. Einstaklingur má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.
5. Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né staði þar sem margir koma saman, þ.m.t. í verslanir eða lyfjabúðir.
6. Einstaklingur má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, svo sem stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum, nema á leið inn og út.

Nauðsynlegt er að undirbúa þá leikmenn sem hingað koma og þurfa að sæta sóttkví undir það sem framundan er. Einnig skal gæta þess að erlendur leikmaður, sem þarf að sæta sóttkví, komist ekki í kynni við eða eigi samskipti við aðra sem tengjast félaginu meðan á sóttkví stendur, nema í gegnum fjarskiptabúnað. Sóttkví sem þessi, reynist seinni skimun neikvæð, getur varað í 4-7 daga. 

Þetta þýðir að fengist hefur undanþága frá ferðatakmörkunum fyrir leikmenn sem koma hingað til lands að spila sem atvinnumenn sem koma frá löndum utan Schengen. Þessi undanþága er veitt til aðildarfélaga okkar og á okkar ábyrgð frá áritunardeild Utanríkisráðuneytisins. 

KKÍ hefur sett inn tímabundið ákvæði í reglugerð um félagsskipti fyrir erlenda leikmenn um að leikmenn fái ekki leikheimild fyrr en búið að sýna fram á að seinni skimun sé neikvæði. Reglugerð um félagaskipti má nálgast á heimasíðu KKÍ.

Athugið: Eins og áður þarf að auki staðfestingu á atvinnuleyfir frá VMST til að leikmenn hljóti leikheimild en það gerist samhliða eða í framhaldinu af dvalarleyfisumsókninni hjá UTL eins og áður.


Viðbrögð við einkennum um öndunarfærasýkingu hjá leikmanni

(Leiðbeiningar um einkenni og viðbrögð hér fyrir neðan eru birtar með leyfi KSÍ og unnar af Runólfi Pálssyni (lækni m.fl. karla hjá Víkingi R.) og Davíð O. Arnar (lækni m.fl. karla hjá Fram) í samráði við Reyni Björnsson, formann heilbrigðisnefndar KSÍ, embætti landlæknis og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og eru nýttar með leyfi KSÍ.)

Ef leikmaður fær einkenni sem bent geta til öndunarfærasýkingar, t.d. nefrennsli, hálssærindi eða hósta, eða önnur einkenni sem gætu stafað af sýkingu, s.s. hita, skyndilegan slappleika eða bein- og vöðvaverki, ætti hann/hún að halda sig heima og alls ekki mæta til æfingar eða keppni eða eiga nein bein samskipti við aðra leikmenn eða aðstandendur liðsins. Nauðsynlegt er að leikmaðurinn fari strax í rannsókn til að staðfesta eða útiloka COVID-19 og er því mikilvægt að hann/hún leiti strax til sinnar heilsugæslustöðvar (þar sem leikmaðurinn er skráður).

Hafa skal samband við heilsugæslustöð með eftirfarandi hætti:

1. Símleiðis. Upplýsingar um öll símanúmer eru að finna á vegvísi inn á www.heilsuvera.is  
2. Í gegnum „mínar síður“ á www.heilsuvera.is er hægt að senda skilaboð til heimilislæknis eða heilsugæslustöðvar .
3. Um helgar er hægt að hafa samband við læknavaktina í síma 1700.

Ef sýni er tekið til greiningar á COVID-19 þarf viðkomandi að fylgja leiðbeiningum um einangrun í heimahúsi á meðan beðið er niðurstöðu (sjá vef embættis landlæknis).

Viðbrögð við greiningu COVID-19 hjá leikmanni

Leikmaður sem greinist með COVID-19 þarf tafarlaust að fara í einangrun og mun njóta læknisþjónustu eins og aðrir einstaklingar í samfélaginu. Leikmenn sem hafa verið í nánd við þann veika frá því 1-2 dögum áður en einkenni hans byrjuðu teljast hafa verið útsettir fyrir smiti. Með því er almennt átt við að þeir hafi verið í minna en tveggja metra fjarlægð frá smitaða einstaklingnum í 15 mínútur eða lengur, hafi verið í beinni snertingu við viðkomandi, dvalið í sama húsnæði, snert sömu hluti eða fleti, eða hafi verið í sama farartæki. Smitrakningateymi almannavarna metur og tekur ákvörðun um hvort einhverjir leikmenn þurfi að fara í sóttkví.

Endurkoma leikmanns eftir COVID-19

Leikmaður sem sýkst hefur þarf eins og aðrir að halda sig í einangrun þar til liðnir eru a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarprófi) og að hann/hún hafi verið einkennalaus í a.m.k. 7 daga. Áður en að leikmaður getur hafið æfingar og keppni á ný þarf mat læknis til staðfestingar á að hann/hún sé leikfær samkvæmt fyrirliggjandi leiðbeiningum.