Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í 37. sinn laugardaginn 22. ágúst. Eins og venjan er safna hlauparar áheitum fyrir hin ýmsu góðgerðarfélög.

Þetta árið hefur verið myndaður hópur til þess að hlaupa fyrir landsliðskonuna Berglindi Gunnarsdóttur, sem fyrr á hlaut háls og mænuáverka í rútuslysi er hún var á leiðinni í skíðaferð á Akureyri með 50 öðrum háskólanemum.

Hópurinn telur á fjórða tug hlaupara. Í honum eru vinir, þjálfarar og liðsfélagar Berglindar úr Snæfelli og íslenska landsliðinu. Til þessa hefur hópurinn safnað tæpum 600 þúsund krónum, en enn er rúmur mánuður til stefnu að heita á hlaupara í honum.

“Hlaupum fyrir Berglindi er styrktarsjóður sem ætlað er að styðja við endurhæfingu Berglindar Gunnarsdóttur”

Hérna er hægt að heita á Hlaupum fyrir Berglindi

Þá er líkt og síðustu ár einnig safnað í Minningarsjóð Ölla í Reykjavíkurmaraþoninu.

“Minningar- og styrktarsjóður Ölla hefur það að markmiði að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna. Sjóðurinn var stofnaður haustið 2013 af móður Ölla í tilefni af frumsýningu á heimildamynd um Ölla eftir Garðar Örn Arnarson og hefur fram til þessa stutt vel á annað hundrað börn um land allt til margvíslegrar íþróttaiðkunar. Örlygur Aron Sturluson var eitt mesta efni í sögu íslensks körfubolta. Aðeins 16 ára var hann orðinn lykilmaður í meistaraflokksliði Njarðvíkur. Hann spilaði með unglingalandsliðinu og A-landsliðinu og var orðinn einn af albestu leikmönnum meistaradeildarinnar tímabilið 1999-2000 þegar hann lést af slysförum 16. janúar árið 2000. Sjóðurinn er bæði með facebook-síðu og heimasíðu

Hérna er hægt að heita Minningarsjóð Ölla