Skallagrímur heldur áfram að styrkja hóp sinn fyrir komandi átök í Dominos deild kvenna. Í dag var tilkynnt að liðið hefði samið við Nikita Telesford.

Nikita er öflugur miðherji sem kemur beint úr kanadíska háskólaboltanum. Hún lék með Concordia á síðustu leiktíð en var þar á undan með Oklahoma háskólanum í Bandaríkjunum. Hún var með 11,5 stig og 7,8 fráköst að meðaltali í leik fyrir Concordia. Nikita er 1,89 cm á hæð og er væntanlega ætlað að fylla í skarð Emelie Sofie Hesseldal sem lék með liðinu undir körfunni á síðustu leiktíð.

Í tilkynningu Skallagríms segir Nikita: ,,Ég veit hvert mitt hlutverk er og ég hlakka til að koma til Íslands og byrja að æfa með Skallagrím,”

Guðrún Ósk Ámundadóttir þjálfari Skallagríms segist ánægð í tilkynningunni með að fá Nikitu í Borgarnes – ,,Ég hef haft ákveðna sýn á hvernig við þyrftum að styrkja liðið og það hefur að mestu gengið eftir. Hef átt góð samtöl við Nikitu þar sem við höfum farið yfir hennar hlutverk og ég held að hún muni leysa þetta vel. Get eiginlega ekki beðið eftir því að hefja leik í haust,” segir Guðrún Ósk.

Bikarmeistarar Skallagríms ætla sér stóra hluti í Dominos deildinni á næstu leiktíð. Nú þegar hefur liðið samið við þær Sönju Orazovic og Emblu Krístínardóttur um að leika með liðinu. Einnig hefur verið endursamið við Keiru Robinson sem var algjörlega frábær með liðinu á síðustu leiktíð.