Á morgun, laugardaginn 1. ágúst, mun Þór Akureyri tilkynna hver verður þjálfari liðsins á komandi tímabili í Dominos deild karla. Líkt og dagsetningin gefur til kynna hefur félagið beðið með að ráða þjálfara í dágóðan tíma þetta sumarið, en fyrrum þjálfari þeirra, Lárus Jónsson, gekk til liðs við hitt Þórsliðið í deildinni síðasta vor.

Margir hafa verið nefndir sem mögulegir arftakar Lárusar, en líklega enginn eins oft og bandaríkjamaðurinn Andy Johnston, sem talið er líklegt að verði tilkynnt á morgun.

Johnston ætti að vera íslenskum aðdáendum kunnur, en hann þjálfaði lið Keflavíkur tímabilið 2013-14. Síðan þá hefur hann verið í bandaríska háskólaboltanum, þar sem hann var aðstoðarþjálfari Marist frá 2014 til 2018, en á síðasta tímabili var hann aðalþjálfari Ura í Finnlandi.