Bakvörður Brooklyn Nets, Kyrie Irving, hélt í vikunni fjarfund með á níunda tug leikmönnum NBA deildarinnar þar sem áætlanir forráðamanna deildarinnar um að halda tímabilinu áfram voru ræddar.

Voru þar nokkrir nafntogaðir leikmenn sem létu í ljós áhyggjur sínar af þessum áformum, Kyrie sjálfur, leikmaður Utah Jazz Donovan Mitchell, leikmaður Los Angeles Lakers Dwight Howard og leikmaður Portland Trail Blazers Carmelo Anthony.

Flestir höfðu þeir áhyggjur af því að halda áfram vegna þess ástands sem er í Bandaríkjunum um þessar mundir vegna þeirrar hreyfingu og mótmæla sem hafa átt sér stað á síðustu vikum í Bandaríkjunum gegn kynþáttamismunun.

Þá á Mitchell að hafa haft áhyggjur af þessum áformum útaf hættu á meiðslum, en vegna þess hversu litla æfingu leikmenn deildarinnar hafa fengið síðustu mánuði aukast þær umtalsvert.

Irving á að hafa sagt á fundinum að þó svo að hann sé mótfallinn þessum áformum deildarinnar, muni hann standa með þeirri ákvörðun sem leikmenn taka.