Árlegt Norðurlandamót yngri landsliða hefur verið sett aftur á eftir að því hafði áður verið frestað vegna Covid-19 faraldursins. Upphaflega átti mótið að hefjast nú í lok mánaðar, en hefur verið fært þangað til í byrjun ágúst. Staðfesti KKÍ þetta fyrr í dag með fréttatilkynningu.

Árlega fer mótið fram í Kisakallio í Finnlandi, þar sem að undir 16 og 18 ára lið Norðurlandanna og Eistlands etja kappi.

Fréttatilkynning KKÍ:

NM, árlegt Norðurlandamót U16 og U18 landsliða drengja og stúlkna, verður haldið í ár og mun fara fram dagana 4.-7. ágúst í Kisikallio í Finnlandi.

Þar sem ástandið á Norðurlöndnum vegna COVID-19 hefur breyst hratt til batnaðar undanfarnar vikur hafa körfuknattleikssamböndin unnið að því að koma aftur á Norðurlandamóti U16 og U18 sem átti að fara fram 29. júní-5. júlí í Kisakallio í Finnlandi.

Mótið verður haldið í Kisakallio, líkt og undanfarin ár, en um er að ræða glæsilegt íþróttasetur með öllu sem til þarf til að halda stórt mót. Norðmenn og Svíar verða ekki með á mótinu í ár þar sem Norðmenn ákváðu að vera ekki með þegar hugmyndin fór af stað aftur og Svíar fá ekki að fara yfir til Finnlands eins og staðan er núna, og er þessi ákvörðun tekin í góðri sátt við körfknattleiksambönd beggja landa. Landsliðin okkar munu spila fjóra leiki hvert við Finnland, Danmörku og Eistland og svo úrslitaleikur eða leikur um 3. sætið síðasta dag mótsins.

Engir áhorfendur verða leyfir og aðeins lágmarksmannskapur frá hverju sambandi verður leyfður, allir leikir mótsins verða sýndir í beinni útsendingu á netinu ásamt því að vera í beinni tölfræði lýsingu. Icelandair mun fljúga hópnum út mánudaginn 3. ágúst og heim laugardaginn 8. ágúst.

Það er afar gleðilegt að fá þessa landsleiki í ágúst fyrir U16 og U18 landsliðin okkar en allt útlit var fyrir að engir landsleikir yrðu spilaðir á þessu sumri en EM-mót FIBA hjá U16, U18 og U20 liðunum voru felld niður sem og alþjóðlegt mót U15-liðanna í Kaupmannahöfn sem fara átti fram um síðastliðnu helgi.

Fyrstu æfingar landsliðanna fyrir NM verða 3.-5. júlí.

Verkefnið er að sjálfssögðu háð þeim fyrirvara að mótið fari eingöngu fram ef allt ástand vegna COVID-19 verði í lagi áfram í þjóðfélaginu og ferðalög áfram leyfð af hálfu yfirvalda sóttvarna og annara aðila vegna COVID-19 faraldursins bæði hér heima og í Finnlandi.