Deildarmeistarar Vals eru nú á fullu að safna liði fyrir komandi átök í Dominos deild kvenna. Fyrr í dag tilkynnti liðið að það hefði samið við Nínu Jenný Kristjánsdóttur um að leika með liðinu á næstu leiktíð.

Tilkynningu Vals má finna hér að neðan:

Nína Jenný Kristjánsdóttir hefur skrifað undir samning við Val um að spila með liðinu í Dominosdeildinni næstu tvö tímabil.
Nína Jenný er 23 ára miðherji hefur síðustu þrjú tímabil spilað með ÍR í 1. deildinni. Á síðasta tímabil var hún með frábærar tölur: 13,4 stig, 7,1 fráköst, 2,1 stoðsendingar og 1,7 varin skot á meðaltali í leik á þeim tæpu 26 mínútum sem hún spilaði. Nína er uppalin í FSU en lék eitt tímabil með Val 2015 til 2016 áður en hún skipti yfir í ÍR.

Ólafur Jónas um Nínu: Nína hefur verið í lykilhlutverki í ÍR undanfarin þrjú ár. Hún leggur hart að sér og er dugleg að æfa sem hefur skilað sér inni á vellinum. Á síðasta tímabili sýndi hún mikla leiðtogahæfileika og fór fyrir liðinu bæði varnar og sóknarlega. Hún er óeigingjörn og leggur sig fram fyrir liðið. Hún kemur til með að styrkja hópinn mikið og auka við breiddina og það verður gaman að halda áfram að fylgjast með þróun hennar sem leikmanns nú þegar hún er komin aftur í úrvalsdeildina.

Nína Jenný um Val: Ég er spennt fyrir komandi tímabili með Val. Valsliðið er skipað mjög sterkum leikmönnum og verður gaman að vera partur af liðinu á ný. Auk þess verður gaman að halda áfram að spila undir stjórn Óla. Ég ætla að gera allt sem ég get til að hjálpa liðinu og hlakka mikið til að komast aftur af stað eftir skrítinn enda á síðasta tímabili.

Við bjóðum Nínu velkomna í Val!