Hilmar Pétursson er genginn til liðs við Hauka á ný en hann lék síðustu tvö keppnistímabil með Breiðablik. Hilmar þekkir vel til á Ásvöllum en hann lék upp alla yngri flokkana með Haukum. Samdi hann til tveggja tímabila.

„Ég er virkilega glaður að vera kominn aftur heim í Hauka og er mjög spenntur að geta farið að byrja að æfa og spila á ný og að takast á við næstu áskorun,“ sagði Hilmar.

Israel Martin, þjálfari mfl. karla, segist vera spenntur fyrir Hilmari næsta vetur sem hefur bætt sig á liðnu tímabili. „Ég er mjög ánægður að fá Hilmar aftur. Hann er orðinn þroskaðri leikmaður en hann átti mjög gott tímabil í fyrra með Breiðablik og ég er viss um að hann bæta miklu við leik okkar næsta vetur.“