Einkaþjálfun hjá spænskum þjálfurum á Íslandi

Þrír spænskir þjálfarar sem hafa verið að þjálfa á Íslandi ætla að sameinast og bjóða upp á einkaþjálfun fyrir unglinga og meistaraflokksleikmenn í körfubolta hér á Íslandi á sumarmánuðunum.

Hjónin Richi Gonzalez og Lidia Mirchandani hafa verið að þjálfa hjá Keflavík við góðan orðstír í nokkur ár og Fran Garcia tók nýverið við meistaraflokki kvenna hjá KR eftir að hafa stýrt yngri flokka starfi Skallagríms þar á undan.

Richi hefur þjálfað síleska kvennalandsliðið og bæði karla- og kvennalandslið Norður-Kóreu í körfubolta. Fran hefur þjálfað indverska kvennalandsliðið og hefur þjálfað í mörg ár í spænsku kvennadeildinni. Lidia er fyrrum landsliðskona í spænska landsliðinu og á að baki meira en 20 ára leikmannaferil.

Hægt er að hafa samband við þau í gegnum tölvupóstfangið icelandskills@gmail.com, þau bjóða upp á einkaþjálfun fyrir 14 ára og eldri.