Körfuboltabúðir Tindastóls verða haldnar 11.-16. ágúst 2020 á Sauðárkróki. Búðirnar eru fyrir leikmenn á aldrinum 9-18 ára (fæddir 2011-2002). Lögð verður áhersla á þjálfun í grunnatriðum leiksins, tækni- og styrktaræfingar og einnig verða ýmsir fyrirlestrar í boði.


Gist verður á Hótel Miklagarði sem er staðsett við íþróttahúsið á Sauðárkróki. Á Hótel Miklagarði eru öll herbergi með baðherbergi. Þar er einnig boðið upp á morgun-, hádegis- og kvöldmat.

Aðstaða til íþróttaiðkunnar á Sauðárkróki er mjög góð og allt íþróttasvæðið á sama stað. Því er æft við topp aðstæður.

Yfirþjálfari búðana er Baldur Þór Ragnarsson þjálfari meistaraflokks karla hjá Tindastól. Baldur Þór er aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins og hefur hann einnig þjálfað yngri landslið Íslands og hefur þar unnið með öllum fremstu þjálfurum landsins síðustu ár.


Baldur Þór hefur aflað sér mikillar þekkingar og reynslu í styrktarþálfun og hugarfari leikmanna. Hann þjálfar leikmenn í eflingu hugarfars sem er nokkuð nýtt á Íslandi. Baldur Þór er menntaður einka- og styrktarþjálfari frá ÍAK og hefur auk þess sótt fjölda námskeiða í styrktar- og hugarfarsþjálfun hérlendis sem og erlendis.

Auk Baldurs verða í þjálfarateyminu, Finnur Freyr Stefánsson, fimmfaldur Íslandsmeistari með KR og nýráðinn þjálfari karlaliðs Vals, skagfirðingurinn Israel Martin, þjálfari karlaliðs Hauka og Árni Eggert Harðarson, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Tindastól.


Nú í vikunni bárust svo þær fregnir að Hildur Björg Kjartansdóttir ein besta körfuknattleikskona Íslands hefur boðað komu sína til okkar. Hildur Björg er leikmaður meistaraflokks kvenna í KR og er lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Körfuboltabúðir Tindastóls eru haldnar og hlökkum við mikið til.

Skagafjörður hefur upp á margt bjóða, einstaka náttúru, góða sundlaugar, 9 holu golfvöll, söfn og margt fleira. Nú er um að gera að slá tvær flugur í einu höggi og senda barnið í körfuboltabúðirnar og fjölskyldan fer saman í frí í Skagafjörð.

Skráning er hafin og fer vel af stað en takmörkuð pláss eru í boði.
Skráning fer fram á Facebook-síðu körfuboltabúðanna en þar má einnig finna nánari upplýsingar.