Líkt og í fréttum var fyrr í morgun er körfuknattleikskona ársins, leikmaður Íslands og Vals í Dominos deild kvenna, Helena Sverrisdóttir, með barni. Staðfesti hún það á samfélagsmiðlinum Instagram.

Helena hafði nýlega einnig tekið við sem aðstoðarþjálfari Vals á sama tíma og Ólafur Jónas Sigurðsson var kynntur sem aðalþjálfari þeirra.

Í samtali við Körfuna fyrr í dag sagði hún að áætlunin væri að vera komin aftur á parketið eftir áramótin, þar sem að barnið væri væntanlegt í byrjun desember. Sagði hún enn frekar að hún hygðist æfa eins og hún gæti á meðgöngunni.

Í 21 leik með deildarmeisturum Vals á síðasta tímabili skilaði Helena 16 stigum, 9 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik, en tímabilinu var að sjálfsögðu aflýst, svo ekki gafst henni eða Valskonum færi á að verja Íslandsmeistaratitilinn sem þær unnu árinu áður.