Eftir að Bandaríkin hafa ítrekað gengið framhjá bakverði Brooklyn Nets, Spencer Dinwiddie í vali sínu, hefur leikmaðurinn ákveðið að leika fyrir Nígeríu á Ólympíleikum næsta árs.

Samkvæmt frétt Shams Charania á The Athletic er Dinwiddie þessa dagana í ferli hjá yfirvöldum í Nígeríu og mun fá vegabréf og í framhaldi mun hann verða hluti af liði þeirra. Þar mun leikmaðurinn líklega vera í liði með öðrum NBA leikmönnum sem eru með nígerískt ríkisfang, þeim Al-Farouq Aminu, Josh Okogie, Chimezie Metu og fyrrum leikmanni deildarinnar Ekpe Udoh. Þá er þjálfari liðsins einnig úr deildinni, en það er fyrrum þjálfari Cleveland Cavaliers og Los Angeles Lakers, Mike Brown, sem var ráðinn fyrr á árinu.

Samkvæmt reglum Alþjóðaólympíu- nefndarinnar þurfa leikmenn hvers liðs að vera þegnar þeirrar þjóðar sem þeir leika fyrir og er það mjög algengt að íþróttamenn leiki fyrir önnur lönd en þeir fæddust í. Þannig var það fyrir um 6% allra sem tóku þátt á síðustu leikum.

Spencer Dinwiddie fæddist og ólst upp í Los Angeles í Bandaríkjunum og spilaði háskólabolta í Colorado. Í NBA deildinni hefur hann leikið fyrir tvö lið á sex árum, Detroit Pistons og Brooklyn Nets. Síðasta tímabil hans besta til þessa, þar sem hann skilaði 21 stigi að meðaltali í leik.