Fyrir rúmu ári síðan gekk Snjólfur Marel Stefánsson til liðs við Balck Hills State Yellow Jackets. Yellow Jackets leika í Rocky Mountain hluta annarar deildar bandaríska háskólaboltans.

Snjólfur lék upp alla yngri flokka og með meistaraflokk Njarðvíkur. Þá lék hann einnig fyrir meistaraflokk Selfoss í fyrstu deildinni tímabilið áður en hann hélt vestur um haf. Á því tímabili skilaði hann 15 stigum, 8 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik. Þá hefur Snjólfur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Karfan hafði samband við Snjólf og spurði hann út í fyrsta árið í háskólaboltanum og lífið í Spearhead, Suður Dakóta.

Hvernig fannst þér þetta fyrsta ár ganga með Black Hills?

“Það gekk ágætlega. Við enduðum tímabilið með jafnmarga sigra og Dixie State, sem eru á leiðinni í Division 1 á næsta ári, og þurftum þess vegna að deila fyrsta sætinu í deildinni með þeim”

Er mikill munur á lífinu í Spearfish og hér heima?

“Já, vissulega einhver munur. Ég held til dæmis að það séu fleiri pallbílar í bænum sem ég bý en á öllu Íslandi”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima?

“Reglurnar eru náttúrulega allt öðruvísi úti, það tók mig smá tíma að venjast því en það kom þó að lokum. Svo held ég að maður þurfi að passa sig aðeins meira að láta ekki troða yfir sig úti heldur en heima”

Er mikill munur á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?

“Já, þetta er allt öðruvísi skipulag, og miklu lengri ferðalög. Æfingarnar úti eru líka töluvert erfiðari og það tók mann smá tíma að venjast því”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára tímabilið og skóla?

“Við rétt náðum að klára tímatímabilið áður en öllu var aflýst, þannig faraldurinn hafði ekki nein áhrif á leikjaáætlunina hjá okkur. Það voru samt vonbrigði að geta ekki æft með liðinu í vor og þurfa að fara fyrr heim en maður gerði ráð fyrir”

Nú varst þú að klára þitt fyrsta ár úti á Bandaríkjunum. Ertu að fara aftur út næsta haust? Hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Ég geri ráð fyrir því að fara aftur út. Það er bara vonandi að ástandið verði orðið betra í haust. Aðalarkmiðið mitt er að reyna að hjálpa liðinu að komast lengra en við gerðum í vor. Það væri líka fínt að geta bætt sig aðeins persónulega í körfubolta”