Keppni á Íslandsmótinu í körfuknattleik karla hófst árið 1952. Það var ekki fyrr en tímabilið 1975-1976 sem leyft var að nota einn útlending í hverju liði. Tímabilið 1983-1984 voru erlendir leikmenn ekki leyfðir og stóð það bann í sex tímabil. Þá tók við tími þar sem lið voru með einn erlendan leikmann og þeir voru ekki alltaf bandarískir. Nær okkur í tíma voru tveir erlendir leikmenn leyfðir um stutt skeið og síðar kom svokölluð 3 plús 2 regla. Núna geta lið tæknilega verið með 12 erlenda leikmenn á leikskýrslu. Veruleikinn á síðasta tímabili var þó ekki alveg þannig, en þá spiluðu erlendir leikmenn um 40% af mínútunum sem leiknar voru í Dóminós deild karla (Ddk).

Í töflu og mynd hér á eftir hefur leiktíma í Ddk tímabilið 2019-2020 hjá hverju liði verið skipt á „heimamenn“ hvers félags, aðra Íslendinga, innflytjendur með hérlendan ríkisborgararétt og útlendinga. Leiðrétt var fyrir þá leikmenn sem öruggt var að hefðu hafið leik, eitt tímabil eða lengur, hjá öðru félagi en því sem skráð er hjá KKÍ. Þessi tölfræði verður ekki greind hér. Heldur er henni varpað fram til að skapa umræður.