Sigurður Gunnar Þorsteinsson er samningslaus eftir að leiðir hans og ÍR skildu fyrir skemmstu. Sigurður sagði frá þessu í dag og fékkst í stutt spjall við Körfuna.

„Já, þeir riftu honum eftir seasonið,“ sagði Sigurður um samning sinn við ÍR. Hann var svo óheppinn að slíta krossband í byrjun tímabilsins eftir að hafa spilað aðeins níu mínútur í fyrsta leik sínum með liðinu. Sigurður spilaði ekki meira fyrir liðið á tímabilinu.

Miðherjinn vestfirski hefur verið að byggja upp löppina aftur og verður að eigin sögn tilbúinn þegar næsta tímabil gengur í garð. „Hún er öll að koma til, löppin,“ sagði Sigurður um meiðslin og var ekki í neinum vafa um það. „Endurhæfingin er í fullum gangi og ég verð tilbúinn fyrir fyrsta leik,“ sagði Sigurður.

Siggi stóri, eins og hann er stundum kallaður, var á meðal bestu leikmanna í Dominos deildinni á tímabilinu 2018-2019 þar sem hann var með 13,4 stig, 8,4 fráköst og 1,6 varin skot að meðaltali í leik fyrir ÍR. Hann var lykilmaður í spútnik-liði Breiðhyltinga sem komust í oddaleik gegn KR í lokaúrslitunum eftir að hafa endað í 7. sæti í deildarkeppninni. Sigurður var í lok tímabilsins valinn í úrvalslið Dominos deildar karla í fimmta sinn á tíu árum.

Leitin hefst þá að nýju liði, en Siggi vildi ekki gefa neitt upp um þau mál að svo stöddu. Karfan vonar allavega að við fáum að njóta þess að horfa á hann spila á næsta tímabilinu, hvar svo sem að það væri.